Kjörnir fulltrúar verða að forðast að nota siðareglur sem tæki í pólitískum ágreiningi

lonsleira sfk april14Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga varar kjörna fulltrúa við að nota siðareglur sveitarfélaga sem tæki í pólitískum ágreiningi. Bæjarfulltrúi á Seyðisfirði segir sárt að hafa setið undir ásökunum innan bæjarstjórnar um að hafa brotið siðareglur sveitarfélagsins.

Kveikjan var ósk Daníels Björnssonar, Sjálfstæðisflokki um að skoðað yrði hvort Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir, Samfylkingu og Þórunn Hrund Óladóttir, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, hefðu brotið siðareglur bæjarins með því að leggja til afgreiðslu í bæjarráði á máli áður þótt beðið væri eftir frekari gögnum.

Daníel taldi þær hafa brotið gegn ákvæði um vandaða upplýsingaöflun og vísaði forseti bæjarstjórnar bókun hans áfram til siðanefndarinnar. Anna Guðbjörg og Þórunn Hrund sendu á móti eigið erindi til siðanefndarinnar og óskuðu eftir áliti á ásökunum Daníels.

Ásökun um brot snertir mannorð fólks

Í áliti siðanefndarinnar eru kjörnir fulltrúar minntir á að nota siðareglurnar sparlega. „Kjörnir fulltrúar verða að forðast að nota skráðar siðareglur sem tæki í pólitískum ágreiningi. Ásökun um brot á siðareglum er ávallt alvörumál og snertir mannorð fólks.

Siðareglum kjörinna bæjarfulltrúa fylgir engin úrskurðarnefnd sem leitt gæti slíka ásökun til lykta. Því er sérstök hætta á að ásakanir sem ganga á víxl og engin leið er að sannreyna verði að vopnum í ágreiningi innan og utan bæjarstjórnar. Slík framvinda gengur gegn þeim tilgangi siðareglna að styðja vandað siðferði kjörinna bæjarfulltrúa og stuðla að verðskulduðu trausti samfélagsins í þeirra garð."

Þar segir ennfremur að siðareglurnar séu „áminning og hvatning um ábyrgð en ekki takmörkun á mál- og tillögufrelsi." Eðlilegt sé að mismunandi bakgrunnur bæjarfulltrúa birtist í „mismunandi sýn á hvers góð stjórnsýsla krefst í hverju tilviki" og menn kunni að greina á um hvað almannahagsmunir snúist.

Mismunur hjá umhverfisnefnd?

Málið snýst um uppbyggingu Guðrúnar Katrínar Árnadóttur, aðalbæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og manns hennar á íbúðarhóteli við Lónsleiru. Í stöðuuppfærslu á Facebook gerði hún athugasemd við málsmeðferð bæjarins en hann hafði meðal annars verður gerður afturreka með fasteignagjöld.

„Það virðist vera nákvæmlega sama hvað við förum fram á við bæjarfélagið / umhverfisnefnd, þeim er það yfirleitt á móti skapi," skrifar hún og bætir við í lok færslunnar.

„Ég vil ráðleggja umhverfisnefndinni að fá sér göngutúr um svæði og skoða húsin á umræddu verndaða svæði og vera síðan meðvituð um að það er bannað að mismuna borgurunum samkvæmt stjórnsýslulögum."

Í bókun umhverfisnefndar í kjölfarið segir hún að henni þyki „miður miður sá farvegur sem málið hefur verið sett í og er sammála um að taka sér tíma til að skoða ummælin m.a. með hliðsjón af siðareglum bæjarfulltrúa."

Sá vanhæfi haldi sig til hlés í almennri umræðu

Guðrún Katrín vék sæti við alla umfjöllun máls hennar og tóku varafulltrúar eftir föngum sæti, þeirra á meðal Anna Guðbjörg á síðari stigum í bæjarstjórn og bæjarráði. Anna Guðbjörg tók ekki þátt í umræðum við stöðufærslu Guðrúnar en líkaði við hana.

Í álit siðanefndarinnar eru varafulltrúar minntir á að gæta „þess vandlega að verða ekki fyrir áhrifum frá skoðunum eða hagsmunum hins vanhæfa. Til að svo megi verða er að sjálfsögðu brýnt að sá sem er vanhæfur haldi sig á allan hátt til hlés í almennri umræðu um viðkomandi málefni á meðan það er til umfjöllunar hjá sveitarfélaginu."

Nefndin minnir á að kjörnir fulltrúar komi fram af „fullri virðingu" gagnvart hver öðrum, íbúum, viðskiptavinum og starfsmönnum sveitarfélagsins í ræðu og riti

Sárt að sitja undir ásökunum

Í bókun sem Þórunn lagði fram á fundi bæjarráðs þegar álitið var kynnt segir hún að sárt hafi verið að sitja undir ásökunum. Hún segir þá sérfræðinga sem hún og Anna hafi ráðfært sig við ekkert hafa fundið sem benti til þess að þær hafi brotið siðareglurnar.

„Við viljum lýsa furðu okkar á því hversu langt er gengið til að reyna að draga fram óheiðarleika í okkar störfum og þar með sverta nafn okkar. Siðareglum kjörinna fulltrúa fylgir engin úrskurðarnefnd sem leitt getur til lykta ásakanir um brot á þeim. Þeim mun alvarlegra er þetta mál í okkar huga og sárt að þurfa að sitja undir téðum ásökunum."

Í bókun Arnbjargar Sveinsdóttur, forseta bæjarstjórnar frá síðasta fundi, er minnt á að siðanefndin hafi ekki úrskurðarvald heldur sé ætlað að fjalla almennt um „skýringar á ákvæðum siðareglna með það fyrir augum að málum verði beint í réttan farveg og þau færð til betra horfs í framtíðinni."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.