Allstaðar búið að skera inn að beini: Kalla 0,19% ekki blóðugan niðurskurð
Frambjóðendur Fjarðalistans segja mikilvægt að efla fjölskyldusvið og velferðarþjónustu í Fjarðabyggð eftir niðurskurðartímabil. Oddviti Sjálfstæðismanna segir það lúxusvandamál að leikskólar sveitarfélagsins séu sprungnir.Heilbrigðis-, skóla-, og félagsmál voru í brennidepli á framboðsfundi á Eskifirði í gærkvöldi. Fundargestir spurðu meðal annars út í framtíðarsýn leikskólanna og hvort færa ætti yfirstjórn þeirra undir grunnskólastjórana, eins og nýlega var horfið frá á Fáskrúðsfirði í kjölfar mótmæla.
Þá var bent á að mikið álag væri á leikskólakennurum þar, starfsmannavelta mikil og talsvert um veikindi og aðrar fjarvistir. Frambjóðendur voru því beðnir um úrræði til að koma veg fyrir að starfsmenn brynnu út.
Eiður Ragnarsson, Framsóknarflokki, sagði menn þurfa að bregðast við. „Dóttir mín vinnur á leikskólanum á Reyðarfirði og hún talar um þetta. Mikil veikindi, miklar fjarvistir og mikla starfmannaveltu. Sennilega er best að efla stuðning við leikskólann í gegnum fjölskyldusviði en ég hef ekki nákvæma útfærslu á þessum þremur mínútum sem ég hef hér í pontu."
Skorumst ekki undan ábyrgð
Eydís Ásbjörnsdóttir benti á að Fjarðalistinn hefði ekki samþykkt síðustu fjárhagsáætlun meðal annars vegna flats niðurskurðar á fræðslu- og frístundasviði upp á fimm milljónir króna.
„Einhver kann að hugsa, þetta eru nú þeir málaflokkar sem hafa langmesta fjármagnið og ætti nú ekki að saka eða vera mikið mál að taka nokkra milljónir af heildinni. Staðreyndin er sú að það er allstaðar búið að skera inn að beini. Við munum byrja á því að vinna með fólkinu og viðurkenna vandann."
Hún benti á að skorið hefði verið niður til forvarnarmála, tækja- og húsbúnaður ekki endurnýjaður, valgreinum fækkað, opnunartími sundlauga verið styttur og fleira í þeim dúr á kjörtímabilinu. Hluti þessa hefði verið samstillt átak til að takast á við skuldir. „Við tókum þátt í þessu líka og skorumst ekki undan ábyrgð."
Hún benti einnig á tilkynningum til barnaverndar hefði fjölgað og aukning orðið í fjárhagsaðstoð. Þar væri bæði um að ræða einstaklinga sem misst hefðu bótarétt eftir langvarandi atvinnuleysi og einstaklinga sem ekki hefðu myndað sér rétt, til dæmis ungt fólk sem fallið hefði út úr námi.
Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðismanna, tók ekki undir túlkun Eydísar. „Ég er ekki sammála því að niðurskurðurinn hefði verið flatur. Vegna breytinga á nemendafjölda gafst tækifæri til að hagræða. Í málaflokkinn fara 2,2 milljarðar eða 75% af útgjöldum Fjarðabyggðar. Fimm miljónir þar eru 0,19%. Ég kalla það ekki blóðugan niðurskurð," sagði Jens sem kallað hefur það „ánægjulegt verkefni" að skólarnir séu sprungnir.
Hann sagði standa til að byggja við þá skóla sem væru sprungnir á næstu árum og bæta um leið aðstöðu starfsfólks. Um leið yrði ráðist í frekari umbætur á starfsumhverfinu.
Verkefnum frá ríkinu verður að fylgja fjármagn
Málefni heilsugæslunnar voru einnig til umræðu en fulltrúar Fjarðalistans hafa talað fyrir að sveitarfélagið taki að sér rekstur hennar.
„Það hefur ekki verið nein mótstaða hjá Fjarðabyggð við því að taka við verkefnum sem önnur sveitarfélög hafa tekið við frá ríkinu. Því þarf hins vegar að fylgjast fjármagn. Við getum ekki ákveðið þetta einhliða," sagði Eiður.
Jens Garðar sagðist hafa ásamt fleiri fulltrúum Fjarðabyggðar fundað með Guðbjarti Hannessyni, fyrrverandi heilbrigðisráðherra um möguleikann. Þær upplýsingar hefðu fengist að ekki stæði til að gefa fleiri sveitarfélögum kost á að spreyta sig á heilsugæslunni í bili „og ég held að það hafi ekki breyst í tíð núverandi ráðherra." Málefni eldri borgara séu þar næst á dagskránni.
Jens notaði tækifærið til að tengja Guðbjart við ýmsa frambjóðendur Fjarðalistans í gegnum Samfylkinguna en því svaraði Eydís til baka: „Guðbjartur Hannesson stjórnar ekki stefnu Fjarðalistans."
Kristín Gestsdóttir, Sjálfstæðisflokki, hefur talað fyrir því að bæta enn frekar úr aðbúnaði fjölskyldna og möguleikum til útivistar. „Ég hef ekki enn keypt mér hjól síðan ég flutti austur því ég treysti mér ekki út að hjóla með dóttur mína sem er fimm ára. Göngustígarnir eru ansi nálægt götunum," svaraði hún aðspurð um hverjir vankantarnir væru.
Starfsemi sveitarfélagsins dreift á ný?
Einar Már Sigurðarson sagði að vinna yrði að áframhaldandi sameiningu Fjarðabyggðar, meðal annars með að dreifa starfsstöðvum sveitarfélagsins á ný.
„Við verðum að skoða aftur möguleikann á að dreifa starfsstöðvunum. Það er orðið fullt á Reyðarfirði. Við eigum húsnæði víða og eigum að horfa til þess að nýta það. Við eigum að leita enn betur eftir hugsunum fólksins á hverjum stað því það er enn fullt af fólki sem upplifir að það sé utangarðs eftir sameiningu."
Jens Garðar svaraði að það „yrði gaman að sjá einn af gamla Fjarðalistagenginu opna bæjarskrifstofurnar á Eskifirði. Það verður gaman að sjá Einar Má berjast fyrir þessu á kjörtímabilinu."