Er Páll Björgvin fyrsti kostur sem bæjarstjóri?

pall bjorgvin gudmundsson 2012 skorinFrambjóðendur núverandi meirihlutaflokka í Fjarðabyggð, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, segja það þeirra fyrsta kost að ráða núverandi bæjarstjóra, Pál Björgvin Guðmundsson áfram. Oddviti Fjarðalistans segir Pál Björgvin mjög hæfan en það séu líka fleiri.

Frambjóðendur voru spurðir út í bæjarstjóraráðninguna á framboðsfundum á Reyðarfirði og Eskifirði í vikunni. Á fyrri fundinum voru þeir spurðir út í ferlið en í seinna skiptið hvort Páll Björgvin væri þeirra fyrsti kostur og ef ekki, hvað þeir vildu þá.

„Ef ég segi að hann sé fyrsti kostur þá hefur hann tromp á hendi þegar við förum að reyna að semja við hann," sagði Eiður Ragnarsson, Framsóknarflokki, í gær.

„Einfaldavarið er samt já. Hann er eiginlega okkar fyrsti kostur," sagði Eiður en ítrekaði að það væri nýs meirihluta að koma sér saman um bæjarstjóra.

„Ég vil ekki sjá neinn flokk vera með hreinan meirihluta, ekki einu sinni minni eigin."

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagðist í gær taka fyllilega undir með Eiði. Á fimmtudaginn sögðu bæði hann og Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks, að samstarfið við Pál Björgvin hefði „gengið mjög vel."

Vill ekki ræða einstaklinga heldur stefnu

Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, sagði að það væri „óþarfi að ræða einstakar persónur." Slíkt vildi hann helst ekki gera.

Hann sagði hins vegar að Fjarðalistinn hefði mótað sér stefnu um ráðningu bæjarstjóra og sá þyrfti að vera meðal annars samþykktur af allri bæjarstjórninni auk þess sem „góð þekking" á svæðinu væri „mikill kostur."

„Páll Björgvin uppfyllir þetta allt. Hann er sterkur kandídat með reynsluna og þekkinguna. Þá er þó ekki öll sagan sögð.

Meirihlutasáttmálinn sem gerður verður eftir kosningar ræður ansi miklu og spurningin er hvort Páll Björgvin eða einhver annar getu sætt sig við hann. Þótt hann sé ópólitískur og embættismaður þurfa hans skoðanir og væntingar að vera í samræmi við þennan sáttmála.

Þess vegna er galið að einhver gegni þessu starfi sem er alveg ósammála pólitískri stefnu bæjarstjórnar. Því er ekkert hægt að svara þessari spurningu fyrr en sáttmálinn liggur fyrir.

Við erum með stefnu og þar eru engar persónur nefndar. Páll Björgvin kemur sterklega til greina en einnig margir aðrir en við leggjum líka áherslu á að það verði full samstaða í bæjarstjórninni um þann sem verður ráðinn, eins og var síðast."

Á fundinum á Reyðarfirði viðurkenndi Elvar að síðasta ráðningarferli hefði verið klúðurslegt þegar öllum umsækjendum um starfið var hafnað.

Það breytti því ekki að Páll Björgvin hefði fallið að þeirri stefnu sem Fjarðalistinn hefði markað og samstarfið við hann „að flestu leyti verið gott."

Þar sagði Elvar það ekki skilyrði af hálfu Fjarðalistans að auglýsa starfið en ef það væri gert þá ætti að ráða umsækjanda úr þeim hópi.

Jákvæður fyrir að vera áfram bæjarstjóri

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar sagði Páll Björgvin reiðubúinn að gegna starfinu áfram. „Sé um það almenn sátt innan nýrrar bæjarstjórnar er ég mjög jákvæður fyrir því að sinna áfram starfi bæjarstjóra.

Samskiptin við núverandi bæjarstjórn, bæði meiri- og minnihluta, hafa verið góð og árangur í rekstri og í verkefnum á vettvangi sveitarfélagsins verið mikill,".

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.