Sigurður Ingi: Höfum velt fyrir okkur breytingu á stjórn fiskveiða

sigurdur ingi johannsson mai14Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, segir til greina koma að breyta reglum um úthlutun kvóta í eigu ríkisins þannig hann nýtist frekar sjávarbyggðum sem eiga undir högg að sækja.

„Við höfum velt fyrir okkur breytingum á stjórn fiskveiða. Við erum búin að taka fyrsta skrefið í átt til þess að beita aflaheimildum ríkisins á skynsamari hátt en áður. Það tekur tíma að vinda ofan af kerfinu," sagði Sigurður Ingi á opnum fundi á Djúpavogi í dag.

Sigurður Ingi ræddi einnig þann möguleika að hluti veiðileyfagjalds rynni aftur til sjávarbyggðanna eða landshlutanna til uppbyggingu innviða, svo sem samgangna og fjarskipta.

Hann sagði stjórnvöld þurfa að móta leikreglur sem héldu bæði blómlegri byggð um allt land en tryggðu líka samkeppnisfærni sjávarútvegsfyrirtækja á heimsmarkaði. Ráðherrann rifjaði upp að deilur um fiskveiðistjórnunarkerfið væru áratuga gamlar.

Störfin verða ekki til á skrifstofum í Reykjavík

Sigurður Ingi sagði framtíð Djúpavogshrepps til framtíðar byggja á fjölbreyttari atvinnuháttum. „Ef við ætlum að útskrifast úr því að vera viðkvæm byggð þá þarf fleiri stoðir. Sjávarútvegurinn er samt mikilvægasta atvinnugreinin hér eins og víða.

Lykilatriði er að hér sé sjálfbært samfélag sem byggi á fleiri en einni atvinnugrein. Ég veit að sú óvissa sem hangir yfir höfðum ykkar er óþægileg en aðalmálið er að horfa fram á veginn.

Störfin eru ekki búin til á skrifstofum í Reykjavík. Þið búið til störfin, þið fáið hugmyndirnar. Síðan er það ríkið og stoðkerfi þess eins og Byggðastofnum sem hjálpa ykkur áfram með þær."

Hann gladdist yfir ákvörðun Vísis að fresta því um ár að flytja bolfiskvinnslu fyrirtækisins á staðnum til Grindavíkur.

„Hún getur okkur meira svigrúm til að skipuleggja okkur. Við eigum að horfa til langs tíma í þeim lausnum sem við horfum til.

Aðalmálið er að við horfum fram á veginn og látum ekki mótbyrinn telja úr okkur kjarkinn," sagði Sigurður Ingi og bætti því við að hann þekkti stöðu Djúpavogsbúa eftir að hafa verið sveitarstjórnarmaður þar sem ríkið hefði farið í burt með öll laus störf.

Ákvörðun Vísis sem köld vatnsgusa framan í þingmenn

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði þingmenn Norðausturkjördæmis hafa upplifað það að sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefði lagt sig fram um að miðla upplýsingum um málið til allra hlutaðeigandi.

Hún sagði tilkynningu Vísis í lok mars hafa komið eins og „köld vatnsgusa framan í okkur öll." Skort hefði samhæfingu í viðbrögðum hins opinbera kerfis í kjölfarið.

„Ég hef lært það í vetur að hlutverk þingmanna er að setja lög til framtíðar. Þau eru ekki sett afturvirk en þeim mun mikilvægara er að læra af því sem gerist, eins og hér."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.