Viljum skoða hvort hægt sé að skipta sykurskertri kökunni með öðrum hætti

elfa hlin petursdottir mai14Möguleg forgangsröðun í fjármálum er það sem helst virðist skilja á milli þeirra þriggja framboða sem bjóða fram fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Seyðisfirði. Húsnæðismál grunnskólans virðast ekki þola frekari bið.

„Við viljum áfram styrka og ábyrga fjármálastjórn þar sem lækkað skuldahlutfall er haft að leiðarljósi, en viljum skoða hvort að sykurskertri kökunni megi skipta með öðrum hætti," sagði Elfa Hlín Pétursdóttir, oddviti Seyðisfjarðarlistans á fundinum í gær.

Hún sagði framboðið vilja skoða samninginn um félagsþjónustu við Fljótsdalshérað að fenginni reynslu, sérstaklega með áherslu á málefni fatlaðra og eldri borgara. Þá sagði hún að ekki væri hægt að skera frekar niður í Seyðisfjarðarskóla.

Eva Björk Jónudóttir, fundargestur, vakti máls á bágu ástandi hússins. Hún sagði heilbrigðiseftirlitið hafa gert athugasemdir við það árum saman, vatn fossi um gólf og veggi og mosi þrífist í veggjunum. Hún spurði hversu framarlega í forgangsröðuninni aðgerðir í húsnæðismálum skólans.

„Þetta er efst á forgangslistanum hjá öllum út um allan bæ en strandar allt á fjármagni," sagði Margrét Guðjónsdóttir, formaður bæjarráðs sem er í öðru sæti lista Sjálfstæðisflokksins.

Frambjóðendur Seyðisfjarðarlista og Framsóknarflokks samsinntu að aðgerðirnar þyldu ekki bið.

Grípa hefur til umfangsmikilla aðgerða í fjármálum sveitarfélagsins á síðustu árum. Þróunin virðist vera í rétta átt en hún hefur ekki verið sársaukalaus. Frambjóðendur viðurkenndu að viðhald hefði þurft að sitja á hakanum. „Bærinn hefur látið á sjá," sagði Elfa Hlín.

Arnbjörg Sveindóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, minnti á að bærinn ætti 120 ára afmæli á næsta ári og notaði tækifærið til að hvetja bæjarbúa til að „gera hús sín skínandi" fyrir afmælishátíðina.

Vilhjálmur sagði „forgang að styrkja fjárhagsstöðuna enn frekar" og Arnbjörg sagði öfluga fjármálastjórn einnig fremsta í forgangsröðinni.

Seyðisfjarðarlistinn hefur í kosningabaráttunni talað fyrir auknu íbúalýðræði, meðal annars að íbúar komi að gerð fjárhagsáætlana.

Vilhjálmur sagði menn hafa þróað sig meira í opna fundi en fjárhagsáætlunarferlið væri innrammað ferli samkvæmt lögum.

Margrét sagði að með aukinni aðkomu nefnda hefði áætlunargerðin verið færð nær bæjarbúum þar sem „nefndarmenn koma alls staðar að úr bæjarfélaginu."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.