
20 metrar á sekúndu á morgun en 20 gráður á mánudag
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna hvassviðris á Austurlandi og Austfjörðum á morgun. Á mánudag, annan í hvítasunnu, er hins vegar von á 20 stiga hita.Spáin fyrir bæði austfirsku spásvæðin á morgun er áþekk. Á Austfjörðum tekur viðvörunin gildi klukkan sjö í fyrramálið en klukkutíma síðar á Austurlandi að Glettingi. Hún gildir til klukkan þrjú síðdegis í báðum tilfellum.
Á Austurlandi er spáð norðvestan 15-23 m/s með snörpum vindhviðum og hríð á fjallvegum fram undir hádegi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.
Á Austfjörðum er spáð 18-25 m/s með vindhviðum yfir 35 m/s. Íbúar eru því hvattir til að ganga frá lausamunum. Ferðaveður verður varasamt.
Vegna hvassviðris hefur Landsnet sent frá sér viðvörun vegna raforkukerfisins. Þar segar að sviptivindar í fyrramálið geti valdið truflunum á byggðalínunni milli Prestbakka við Höfn og Hryggstekks í Skriðdal. Að auki verði álag um stund á línum á Austurlandi.
Vegagerðin hefur sett Fagradal, Fjarðarheiði, Vatnsskarð á óvissustig milli klukkan 5 og 14 á morgun. Leiðin frá Reyðarfirði að Höfn er á óvissustigi frá 8-15 og Mývatns- og Möðrudalsöræfi frá 5-12.
Síðan verða umskipti því á mánudag er spáð 20 stiga hita, sól og hægum vindi um allt Austurland. Miðað við núverandi veðurspár verður sumarblíða fram eftir vikunni.