Skip to main content

Samið um áframhaldandi meirihlutasamstarf í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. jún 2014 14:15Uppfært 07. jún 2014 14:54

jens gardar stfj mai14Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa gert með sér samkomulag um áframhaldandi meirihlutasamstarf í Fjarðabyggð. Páll Björgvin Guðmundsson verður áfram bæjarstjóri, Jens Garðar Helgason oddviti Sjálfstæðismanna áfram formaður bæjarráðs og Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarmanna, forseti bæjarstjórnar.


„Við teljum að málefnasamningurinn komi á móts við helstu atriði í stefnuskrám hvors annars," sagði Jens Garðar í samtali við Austurfrétt.

Jens Garðar segir þar komið inn á gjaldalækkanir sem Sjálfstæðismenn lögðu áherslu á í kosningabaráttunni, sumar þeirra taki gildi strax, aðrar á kjörtímabilinu. Þá taki systkinaafsláttur í skólum sem Framsóknarmenn lofuðu gildi í haust.

Áfram á að vinna í eflingu almenningssamgangna og þar verði „horft til sanngirnissjónarmiða allra íbúa í gjaldtöku," að sögn Jens.

Bygging nýs leikskóla í Neskaupstað verður forgangsatriði. Verið er að útbúa útboðsgögn og vonir standa til að verkið verði boðið fljótlega út. Að lokinni byggingu skólans verður síðan ráðist í aðra leikskóla, á Eskifirði og Reyðarfirði.

Undir lok síðasta kjörtímabils og í kosningabaráttunni var tekist á um legu Nesgötu við skólann en samkvæmt deiliskipulagi mun hún liggja á milli leikskólans og grunnskólans. Fjarðalistinn barðist fyrir að hún yrði færð niður fyrir en það kostar um 100 milljónum meira.

Sjálfstæðismenn kynntu í kosningabaráttunni hugmyndir um að stokkur yrði byggður yfir götuna. Jens segir að í málefnasamningnum sé gert ráð fyrir að við lok byggingu skólans verði kostir og kostnaðarmat stokksins metin. Strax í haust verða sett upp gönguljós við helstu skólastofnanir í sveitarfélaginu.

Átak verður gert í umhverfismálum með aukinni sorpflokkun. Markmiðið er að lækka sorphirðugjöld og gera Fjarðabyggð að plastpokalausu sveitarfélagi. Eins verður ráðist í uppbyggingu göngu- og hjólastíga.

Meirihlutasamningur verður undirritaður á fyrsta fundi bæjarstjórnar á Eskifirði þann 17. júní. Hann verður lagður fyrir félagsfundi til formlegrar staðfestingar eftir helgi.