Uta enn í höfn en farmurinn farinn úr landi
Flutningaskipið Uta, sem kyrrsett var í Mjóeyrarhöfn í síðustu viku vegna skulda, er þar enn. Farmur skipsins er hins á leið á áfangastað.Þetta staðfesti Karl Harðarson, forstjóri Thorships, umboðsaðila skipsins hérlendis, í samtali við Austurfrétt í hádeginu.
Farmur skipsins var ál frá Alcoa Fjarðaáli sem fara átti til Rotterdam í Hollandi. Annað skip var fengið til að koma og sækja farminn og er á leið á áfangastað.
Uta er hins vegar enn í Mjóeyrarhöfn og verður væntanlega næstu daga. Skipið var kyrrsett síðastliðinn miðvikudag vegna skulda þýsks eiganda félagsins eftir siglingar í Asíu. „Það er mál sem þarf að leysast í Þýskalandi," sagði Karl.
Þær eru hins vegar Thorships og Fjarðaáli óviðkomandi. Skipið hefur verið frá síðasta hausti verið í leigu hjá hollensku skipafélagi sem sinnir flutningum fyrir Alcoa í Norður-Evrópu.
Mynd: Óli Stefánsson