Nýr meirihluti á Héraði: Ef allir ætla að vinna saman þarf að gera það á jafnréttisgrundvelli
Oddvitar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs segja að ekki hafi verið hægt að fallast á hugmyndir Framsóknarflokksins um samstarf allra í bæjarstjórn því B-lista fólk hafi viljað byrjað viðræðurnar á þeirra hugmyndum frekar en auðu borði.„Þetta er spurning um hvernig hlutirnir eru lagðir upp og það hefði verið heppilegra að leggja þá ferð öðruvísi upp en gert var," sagði Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans.
Hún, Gunnar Jónsson oddviti Á-lista og Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, undirrituðu málefnasamning listanna þriggja á Gistihúsinu á Egilsstöðum í hádeginu í dag.
„Þegar menn ætla að vinna saman á algjörum jafnréttisgrundvelli þá verða allir að koma jafnir að því borði með autt blað. Það getur ekki einn ráðið meiru í því en aðrir.
Menn byrja ekki á tillögum um hvernig raðast í nefndir eða með grind að málefnasamningi. Menn verða að byrja algjörlega á byrjuninni."
Gunnar Jónsson sagði að þetta hefði verið „akkúrat það sem stoppaði á. Það var kannski búið að ákveða of mikið" og Anna sagði að „full langt hefði verið gengið" í fyrstu skrefunum.
Gunnar sagðist eins þeirrar skoðunar að meirihluti þurfi að vera til staðar til að tryggja markviss störf í bæjarstjórn.
„Það getur skorist í odda og tafið störfin ef ekki er ákveðinn meirihluti. Það breytir ekki því að við erum ákveðin í því eftir bestu getu að hafa sem best samstarf innan sveitarstjórnar."