Nýr meirihluti á Héraði: Sveitarfélagið er ekki að fara að kaupa Valaskjálf

meirihlutasamningur fherad 0016 webHelstu ágreiningsmál framboðanna þriggja sem mynda nýjan meirihluta á Fljótsdalshéraði verða leyst með heildstæðum úttektum og stefnum. Umtalsverðar breytingar eru á nefndakerfi sveitarfélagsins.

„Það er ekki tilviljun að þessi staður er valinn. Hér er af bjartsýni byggt og verið að vinna í vaxtarbroddi í atvinnulífi á Fljótsdalshéraði. Hér ríkir bjartsýni, við erum hér á bjartasta degi ársins og þannig ætlum við að sigla áfram með samstarfi við allt gott fólk."

Þetta sagði Gunnar Jónsson, oddviti Á-lista, þegar meirihlutasamstarf listans við Héraðslista og Sjálfstæðisflokk í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs var undirritað á Gistihúsinu á Egilsstöðum í dag. Gildi samstarfsins hádeginu, eru ábyrgð, virðing og samvinna.

Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans, segir að „ljóst að sýna þurfi ábyrgð í fjármálum og því fylgi ábyrgð að sitja í sveitarstjórn."

Virðing og samvinna séu mikilvæg til að tengja saman meirihluta þriggja framboða sem á bakvið standi um 60 manns af framboðslistum. Þá verði borin virðing fyrir íbúum sveitarfélagsins sem séu vinnuveitendur bæjarfulltrúanna.

Engar breytingar ákveðnar í skólamálum

Endurskoða á menntastefnu sveitarfélagsins og á fyrri hluta næsta árs á að gera úttekt á starfsemi grunn- og tónlistarskóla í sveitarfélaginu til að móta framtíðarskipulag skólastarfsins. Úttektina á að gera með „aðkomu nemenda, foreldra og starfsmanna" og kynna niðurstöður hennar „vandlega" áður en tillögur verði lagðar fram.

„Við höfum ekki ákveðið neinar breytingar. Við byrjum á þessari vinnu til að sjá hvar við stöndum og hvert við getum farið," sagði Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans. Listinn talaði fyrir kosningar um að sameina skólana í einn með mismunandi starfsstöðvar en Sjálfstæðisflokkurinn um að loka þyrfti Hallormsstaðarskóla vegna kostnaðar og fækkun nemenda.

„Við erum búin að ræða mikið hvernig farið verði í úttektina. Við munum setja skýrar reglur um hvernig hún fer fram og hvað við viljum virkilega að sé athugað. Við ætlum okkur góðan tíma í verkið og gera breytingar sem eru í sem allra bestri sátt við alla hlutaðeigandi," sagði Gunnar.

Grasrótarsamtök komist inn í Valaskjálf

Sömuleiðis er gert ráð fyrir að unnin verði menningarstefna fyrir sveitarfélagið og þarfagreiningarnefnd sem skipuð var um menningarhús ljúki vinnu sinni.

Framtíð félagsheimilisins Valaskjálfar, menningarmiðstöðvarinnar Sláturhússins og mögulegrar viðbyggingar Safnahússins fellur þar undir.

„Við ræddum líka um að gera grasrótarsamtökum kleift að komast inn í Valaskjálf og byggja þar upp starfsemi. Sveitarfélagið er ekki að fara að kaupa Valaskjálf."

Þá stendur til að móta stefnu í fráveitumálum „til lengri tíma," unnið að því að auka sorpflokkun og ásýnd sveitarfélagsins. Aðalskipulag sveitarfélagsins á að endurskoða sem og deiliskipulag miðbæjarins á Egilsstöðum.

Fjármálin leyfa ekki stórar framkvæmdir

Engar nýframkvæmdir eru nefndar í meirihlutasamningnum og unnið áfram eftir fjárfestingaáætlun fráfarandi bæjarstjórnar.

„Fjármálin hjá þessu sveitarfélagi eru í ákveðnum farvegi og þau leyfa ekki stórar framkvæmdir. Það vita allir og blessunarlega fóru menn ekki út í gylliboð í kosningabaráttunni," segir Gunnar.

Hann minnti jafnframt á að sveitarfélagið standi í einni stærstu framkvæmd sem það hefur ráðist í sem er bygging hjúkrunarheimilis.

Aðspurður sagði Gunnar að málefni reiðhallarinnar á Iðavöllum hefði „ekki verið nefnd" í meirihlutaviðræðunum og um þau ríkti „tómur kærleikur."

Kemur í ljós hvað gert verður í fjármálum

Ekki er minnst sérstaklega á fjármál sveitarfélagsins en fulltrúar Sjálfstæðisflokks sögðu fyrir kosningar að ráðast þyrfti í aðgerðir til að hagræða í rekstri og laga skuldastöðu sveitarfélagsins. Í málefnasamningnum segir að fjármálum þurfi að stýra „með ábyrgum hætti" og halda áætlanir þannig að markmiðum um skuldaviðmið verði náð árið 2019 og „sýna virkt aðhald í daglegum rekstri."

„Það kemur í ljós hvað hægt er að gera. Við höfum rætt um að skoða sölu eigna en það er eftir að vinna allt. Við höfum rætt þessa punkta sem við erum með," sagði Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í dag.

Oddvitarnir skýrðu þó frá því að „vinnuplagg" hefði orðið til við gerð málefnasamningsins þar sem tekið væri á fleiri málum eða farið dýpra í þau málefni sem nefnd eru í samningnum en það væri ekki opinbert.

Uppstokkun í nefndakerfi

Gunnar verður formaður bæjarráðs allt kjörtímabilið. Sigrún verður forseti bæjarstjórnar fyrstu tvö árin og áheyrnarfulltrúi í bæjarráð en skiptir svo við Önnu.

Nokkrar breytingar verða á nefndakerfinu. Skipulags- og mannvirkjanefndir verða sameinaðar í umhverfis- og framkvæmdanefnd. Íþrótta- og menningarnefnd verður skipt upp þannig að menningarmálin verða sameinuð atvinnumálum í fimm manna nefnd en íþróttirnar í þriggja manna nefnd sem einnig fer með tómstunda- og forvarnamál.

Þá verða settar á fót tvær nýjar nefndir. Náttúruverndarnefnd verður þriggja manna og tekur við ákveðnum verkefnum umhverfis- og héraðsnefndar en síðan verður jafnréttisnefnd, einnig með þremur fulltrúum, sem tekur við þeim verkefnum frá félagsmálanefnd.

Meirihlutasamningurinn í heild.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.