Lægstu fasteignagjöldin á Vopnafirði

vopnafjordur 02052014 0004 webLægstu fasteignagjöld landsins eru á Vopnafirði þótt þau hækki töluvert á milli ára. Þau eru hins vegar í hærra lagi miðað við landsbyggðina á Egilsstöðum.

Þetta kemur fram í útreikningum Þjóðskrár Íslands fyrir Byggðastofnun sem birtur eru í dag. Reiknað er út fasteignamat og fasteignagjöld á sömu fasteigninni á nokkrum þéttbýlisstöðum á landinu.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti. Stærð lóðar er 808m2. Gjöldin eru reiknuð út samkvæmt núgildandi fasteignamati sem gildir frá 31. desember 2013 og samkvæmt álagningarreglum ársins 2014 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi. Fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu er.

Fasteignamatið er hæst í Reykjavík og Kópavogi, 29 milljónir að meðaltali. Utan borgarinnar er það hæst á Akureyri, Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, Akranesi og loks Egilsstöðum þar sem matið er 20,9 milljónir.

Lægst er það á Patreksfirði en síðan Vopnafirði 10,1 milljón. Seyðisfjörður, 12,9 milljónir og Neskaupstaður, tæpar 18 milljónir eru einnig í neðri hluta töflunnar. Fasteignamatið hækkar hins vegar á Seyðisfirði um 14,3% sem er næst mest stökkið í úttektinni.

Fasteignagjöldin eru hins vegar langlæst á Vopnafirði, rúm 164.000 krónur þótt þau hækki þar hlutfallslega mest, um 19,4%. Þau eru 52% af gjöldunum í Grundarfirði þar sem þau eru hæst.

Fasteignagjöldin á Egilsstöðum eru hins vegar þau fjórðu hæstu í úttektinni, tæp 280 þúsund. Gjöldin í Neskaupstað eru rúm 245.000 sem er í kringum miðgildi könnunarinnar og svipað og meðaltalið í Kópavogi. Gjöldin í Seyðisfirði eru áþekkt, 234.000.

Horft er til allra svokallaðra fasteignagjalda, það er fasteignaskatts, lóðarleigu, fráveitugjalds, vatnsgjalds og sorpgjalda.

Tekið er fram að sveitarfélög veita mismunandi þjónustu til dæmis hvað varðar sorpurðun og förgun og sums staðar er rukkað fyrir þjónustu sem er innifalin í gjöldum annars staðar.

Sérstök athygli er vakin á því að á einstaka stað er fasteignamat mismunandi eftir hverfum á framangreindum stöðum. Í sveitarfélögum með fleiri en einn þéttbýliskjarna er fasteignamatið mjög mishátt eftir kjörnum og þar með fasteignagjöldin. Sama á við um dreifbýli.

Fyrir kemur að mismunandi reglum er beitt við útreikning lóðarleigu innan sama þéttbýlis, til dæmis vegna þess að eldri samningar kveða á um aðrar reikniaðferðir. Hér er miðað við nýjustu samninga.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.