Skip to main content

Málefnasamningur í Fjarðabyggð: Ráða á verkefnastjóra í atvinnumálum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. jún 2014 13:52Uppfært 25. jún 2014 13:54

jon bjorn hakonarson stfj mai14Í meirihlutasamkomulag Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar er talað sérstaklega um að ráða verkefnastjóra atvinnumála til sveitarfélagsins. Lækka á álögur á fjölskyldufólk í gegnum gjaldskrá skólastofnana.


Gert er ráð fyrir að ráða atvinnufulltrúann til reynslu í eitt ár til reynslu. Honum er meðal annars ætlað að fylgja eftir undirbúningi fyrir verkefni við olíuleit og fá fleiri opinber störf í sveitarfélagið.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að leggja sérstaka áherslu á að hlúa að fjölskyldufólki. Systkinaafslættir á milli skólastiga fyrir barnmargar fjölskyldur verða kynntir til sögunnar, fæðiskostnaður í grunnskólum lækkaður og leikskólagjöld lækkuð. Skoða á innleiðingu á frístundakorti eða hvatafé í íþrótta- og æskulýðsmálum ungmenna á grunnskólaaldri. Auka á samstarf skóla og skólastiga þvert á byggðarkjarna.

Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd er ætlað að vinna framtíðaráætlun um uppbyggingu og endurbætur á götum í sveitarfélaginu og forgangsraða þeim. Þá á hún að vinna áætlun um viðhaldsþörf bygginga í eigu sveitarfélagsins og greina notkunarmöguleika þeirra til framtíðar.

Stefnt er að því að auka flokkun sorps og leita leiða til að gera Fjarðabyggð að umbúðalausu samfélagi. Ráðist verður í átak í uppbyggingu hjóla- og göngustíga og vinna deiliskipulag fyrir alla miðbæi byggðarkjarna Fjarðabyggðar. Úrbætur í fráveitumálum eru einnig á dagskrá.

Þörf á stokki við Nesgötu á að meta þegar bygginu nýs leikskóla í Neskaupstað verður lokið. Undirbúningur annarra skóla sem þörf er á hefst einnig þá.

Bæjarráði er ætlað að ræða leiðir til að hvetja íbúa til aukinnar lýðræðislegrar þátttöku meðal annars í ljósi minnkandi kjörsóknar. Áfram verða haldnir umræðu og upplýsingafundir í byggðakjörnum sveitarfélagsins.

Í haust á að vinna stefnumörkun í málefnum aldraðra með það markmið að sveitarfélagið taki við verkefnum málaflokksins.

Í samkomulaginu er komið inn á helstu áherslur í samgöngumálum. Meirihlutinn vill halda áfram jarðgangagerð í Austurlandsfjórðungi „á grundvelli Samganga". Barist verður fyrir flutningi Hringvegarins af Breiðdalsheiði yfir á Fagradal og firði, að gerður verði nýr Suðurfjarðarvegur á milli Reyðarfjarðar og Stöðvarfjarðar og bundið slitlag lagt á Norðfjarðarflugvöll.

Nokkrar breytingar verða á nefndakerfi sveitarfélagsins. Atvinnu- og ferðamál verða færð undir bæjarráð en menningarmál, sem áður voru með atvinnumálum, færast í menningar- og safnanefnd. Íþrótta- og fræðslunefnd verður tvístrað þannig að fræðslumálin fara í sér nefnd og eins verður til íþrótta- og tómstundanefnd.

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarmanna, var kjörinn forseti bæjarstjórnar á fyrsta fundi og Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokks, formaður bæjarráðs á sama fundi. Eydís Ásbjörnsdóttir sigur með þeim í bæjarráði fyrir hönd Fjarðalistans en framboðið fyrirhugar að breyta um fulltrúa að einu ári liðnu.