Málefnasamningur í Fjarðabyggð: Ráða á verkefnastjóra í atvinnumálum

jon bjorn hakonarson stfj mai14Í meirihlutasamkomulag Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar er talað sérstaklega um að ráða verkefnastjóra atvinnumála til sveitarfélagsins. Lækka á álögur á fjölskyldufólk í gegnum gjaldskrá skólastofnana.

Gert er ráð fyrir að ráða atvinnufulltrúann til reynslu í eitt ár til reynslu. Honum er meðal annars ætlað að fylgja eftir undirbúningi fyrir verkefni við olíuleit og fá fleiri opinber störf í sveitarfélagið.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að leggja sérstaka áherslu á að hlúa að fjölskyldufólki. Systkinaafslættir á milli skólastiga fyrir barnmargar fjölskyldur verða kynntir til sögunnar, fæðiskostnaður í grunnskólum lækkaður og leikskólagjöld lækkuð. Skoða á innleiðingu á frístundakorti eða hvatafé í íþrótta- og æskulýðsmálum ungmenna á grunnskólaaldri. Auka á samstarf skóla og skólastiga þvert á byggðarkjarna.

Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd er ætlað að vinna framtíðaráætlun um uppbyggingu og endurbætur á götum í sveitarfélaginu og forgangsraða þeim. Þá á hún að vinna áætlun um viðhaldsþörf bygginga í eigu sveitarfélagsins og greina notkunarmöguleika þeirra til framtíðar.

Stefnt er að því að auka flokkun sorps og leita leiða til að gera Fjarðabyggð að umbúðalausu samfélagi. Ráðist verður í átak í uppbyggingu hjóla- og göngustíga og vinna deiliskipulag fyrir alla miðbæi byggðarkjarna Fjarðabyggðar. Úrbætur í fráveitumálum eru einnig á dagskrá.

Þörf á stokki við Nesgötu á að meta þegar bygginu nýs leikskóla í Neskaupstað verður lokið. Undirbúningur annarra skóla sem þörf er á hefst einnig þá.

Bæjarráði er ætlað að ræða leiðir til að hvetja íbúa til aukinnar lýðræðislegrar þátttöku meðal annars í ljósi minnkandi kjörsóknar. Áfram verða haldnir umræðu og upplýsingafundir í byggðakjörnum sveitarfélagsins.

Í haust á að vinna stefnumörkun í málefnum aldraðra með það markmið að sveitarfélagið taki við verkefnum málaflokksins.

Í samkomulaginu er komið inn á helstu áherslur í samgöngumálum. Meirihlutinn vill halda áfram jarðgangagerð í Austurlandsfjórðungi „á grundvelli Samganga". Barist verður fyrir flutningi Hringvegarins af Breiðdalsheiði yfir á Fagradal og firði, að gerður verði nýr Suðurfjarðarvegur á milli Reyðarfjarðar og Stöðvarfjarðar og bundið slitlag lagt á Norðfjarðarflugvöll.

Nokkrar breytingar verða á nefndakerfi sveitarfélagsins. Atvinnu- og ferðamál verða færð undir bæjarráð en menningarmál, sem áður voru með atvinnumálum, færast í menningar- og safnanefnd. Íþrótta- og fræðslunefnd verður tvístrað þannig að fræðslumálin fara í sér nefnd og eins verður til íþrótta- og tómstundanefnd.

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarmanna, var kjörinn forseti bæjarstjórnar á fyrsta fundi og Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokks, formaður bæjarráðs á sama fundi. Eydís Ásbjörnsdóttir sigur með þeim í bæjarráði fyrir hönd Fjarðalistans en framboðið fyrirhugar að breyta um fulltrúa að einu ári liðnu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.