Útlit fyrir að Uta verði á Reyðarfirði næstu vikurnar
Útlit er fyrir að flutningaskipið Uta verði á Reyðarfirði næstu vikurnar. Skipið, sem kyrrsett var í Mjóeyrarhöfn í síðustu viku, var í gær flutt þaðan og inn á Reyðarfjörð. Um þriðjungur þess farms sem var í skipinu er enn í Mjóeyrarhöfn.„Það er enn kyrrsett og ég hef trú á að þetta taki einhvern tíma, sennilega einhverjar vikur," segir Karl Harðarson, framkvæmdastjóri Thorships sem er umboðsaðili skipsins hérlendis.
Uta siglir fyrir hollenska skipafélagið CargoW sem er í samstarfi við Thorships. Hollenska félagið leigir það hins vegar af þýska skipafélaginu Intersee líkt og Alexiu sem er í sömu siglingum.
Uta var kyrrsett í Mjóeyrarhöfn vegna ógreiddra olíuskulda þýska félagsins í Asíu. Framtíð þess félags virðist í óvissu.
Skipinu var í gær siglt frá Mjóeyrarhöfn inn á Reyðarfjörð. Karl segir það hafa verið fært til að það væri ekki fyrir þar sem ekki væri útlit fyrir að neitt væri að fara að gerast.
Uta átti að fara með ál frá Fjarðaáli til Rotterdam. Því áli sem var í gámum var komið um borð í annað skip í byrjun vikunnar. Næstu dagar fóru hins vegar í að taka lausa álið úr skipinu, sem voru um 3000 tonn af þeim 9000 sem um borð voru eftir því sem Austurfrétt kemst næst.
Karl segir að búið sé að koma dýrari vörunni erlendis. Í Mjóeyrarhöfn eru hins vegar eftir staflar af áli, bæði úr Uta og frá Jan sem tók gámana úr Uta en þurfti að skilja laust ál eftir. Eins bíður farmur í Rotterdam en kyrrsetning Uta hefur haft nokkur áhrif á siglingar félagsins.
Karl segir að CargoW hafi fengið skip frá Noregi sem komi inn í áætlunina á mánudag og þar með verði „í rólegheitum" tekið af þeim birgðum sem safnast hafi upp.
Tólf eru í áhöfn Uta og eru áhafnarmeðlimir enn um borð. Karl segir stöðu þeirra ákvörðun þeirra „sem hafi með skipið að gera" en tíðinda sé að vænta síðar í dag eða á mánudag.
Hann segir hjá Thorships sé fylgst með aðbúnaði mannanna og tryggt að þeir hafi „nóg að bíta og brenna." Valið að fara til Reyðarfjarðar, frekar en að leggja akkeri úti á firði, hafi einnig verið tekin með hagsmuni áhafnarmeðlima í huga. Eins verði Thorships innan handar ef ákveðið verði að fækka í áhöfninni.
Málefni áhafnarinnar eru í höndum Sjómannasambands Íslands fyrir hönd Alþjóða flutningaverkamannasambandsins. Þar er fylgst með þróun mála og fulltrúi Sjómannasambandsins mun vera væntanlegur austur eftir helgi.
Uta siglir úr Mjóeyrarhöfn. Mynd: BJ