Loðnuvinnslan kaupir nýtt Hoffell: Kominn tími á að uppfæra
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði tilkynnti í gær um að ákveðið hefði verið að kaupa skipið Smaragd frá Noregi. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að tilkoma skipsins feli í sér byltingu fyrir gæði afla og aðstöðu áhafnar.„Afköst í kælingu, siglingu og burði aukast til muna. Þess vegna er þetta bylting í vinnslu á fiski til manneldis," segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.
Von er á skipinu til heimahafnar eftir rúma viku og stefnt að því að hefja makrílveiðar á því um miðjan júlí.
Smaragd er smíðað árið 1999 í Noregi og ber um 1650 tonn. Það er 68 metrar að lengd og tæpir 13 metrar á breidd. Það kemur frá samnefndri útgerð í Álasundi. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Það leysir af hólmi Hoffellið sem hefur verið sett á sölu. Það skip er smíðað árið 1981 og burðargeta þess er tæp 1300 tonn.
Friðrik segir nauðsynlegt að sjávarútvegsfyrirtæki geti endurnýjað flota sinn til að fylgja tækiþróun og fleiru. Hoffellið hefur verið í þjónustu Loðnuvinnslunnar í sextán ár.
Mynd: Loðnuvinnslan