Fagradal lokað á meðan vörubíl var náð upp á veg
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. jún 2014 18:25 • Uppfært 28. jún 2014 01:17
Vegurinn yfir Fagradal var lokaður í rúman klukkutíma seinni partinn í dag þar sem ná þurfti upp vörubíl sem fór út af þar skömmu fyrir hádegi.
Ökumaður var einn í bílnum og slapp hann ómeiddur. Ekki er vitað hvernig óhappið bar að en bíllinn fór beint út af veginum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum.
Bifreiðin stöðvaðist skammt utan vegar og valt ekki. Hún mun samt hafa skemmst nokkuð.
Um klukkan fimm hófust menn handa við að koma bílnum aftur upp á veg og var veginum lokað á meðan. Kortér yfir sex var bíllinn kominn upp á vélavagn og opnað fyrir umferð á ný.