Fimmfalt rennsli í austfirskum ám: Hækkun vatnsborðs mælist í metrum
Gríðarlegir vatnavextir eru í ám víða á Austurlandi, sérstaklega á suðurfjörðum. Rennsli Fossár í Berufirði og Geithellnaár fimmfaldaðist á nokkrum klukkustundum í nótt.Rennsli í Fossá fór úr 38 rúmmetrum á sekúndu, sem er meðalrennslið júnímánaðar, klukkan tíu í gærkvöldi upp í 186 rúmmetra klukkan sex í morgun samkvæmt mælum Veðurstofunnar. Vatnshæðin hækkaði um 140 sentímetra á sama tíma og nærri því tvöfaldaðist. Heldur hefur dregið úr eftir það.
Í Geithellnaá var rennslið 57 rúmmetrar á sekúndu klukkan eitt í gær en var 227 rúmmetrar klukkan fimm í morgun.
Mikil úrkoma er ástæða vatnsaukningarinnar í morgun. Úrkoma síðasta sólarhring í Neskaupstað var 56,7 mm. sem er sú fimmta mesta á landinu. Athygli vekur hins vegar að engin úrkoma er skráð á næstu veðurstöð fyrir norðan, á Dalatanga. Úrkoma á Fáskrúðsfirði og Gilsá í Breiðdal undanfarinn sólarhring er einnig um 50 mm.
Hratt hefur vaxið í Fjarðará síðustu tvo sólarhringa og í morgun mældist þar mesta vatnshæð mánaðarins. Töluverður snjór virðist eftir til að fóðra ána á Fjarðarheiði.
Grímsá, sem rennur út Skriðdal og Velli, var kolmórauð í morgun en hún er yfirleitt tær bergvatnsá.
Vatnshæð í Jökulsá við Hól í Fljótsdal hækkaði um hálfan metra á nokkrum klukkutímum í morgun. Þetta er mesta vatnshæð sem þar hefur mælst síðan um miðjan mánuðinn.
Óvenjumikið vatn hefur þar verið á ferðinni í mánuðinum en meðalrennsli þar í júní hefur verið tvö- þrefaltalt á við meðalrennslið í mánuðinum frá árinu 2008, samkvæmt mælingum Landsvirkjunar.
Leysingar á efri hluta vatnasviðs árinnar hófst síðar en á neðri hlutanum. Á neðri hlutanum byrjuðu leysingar í lok maí en rennslið þar var þrisvar eða fjórum sinnum meira en í meðal júnímánuði. Vísbendingar hafa þó verið um leysingarnar væru að minnka þar síðustu daga.
Veðurstofan spáir sunnan 8-15 m/s og rigningu eða súld með köflum í dag á Austfjörðum en suðvestan 9-15 m/s á Suðausturlandi og rigningu.
Grímsá í ham um klukkan níu í morgun. Mynd: Þórunn Hálfdánardóttir