Breiðdalur: Sveitarstjórnin óskar eftir jákvæðni og stuðningi við áherslumálin
Nýkjörin sveitastjórn Breiðdalshrepps hefur kynnt fyrir íbúum fimm áhersluatriði sem hún heitir að vinna að á kjörtímabilinu. Óskað er eftir aðstoð íbúa til að koma málunum til leiða.„Kæru Breiðdælingar. Þið kusuð okkur í sveitarstjórn og við ætlum að leggja okkur öll fram um að koma góðu til leiðar og ná árangri.
Hvort það tekst verður tíminn að leiða í ljós, en við þurfum aðstoð og samstöðu allra Breiðdælinga. Jákvæðni og umburðarlyndi eru betri kostir en neikvæðni, slæmt umtal og úrtölur, sameinumst um góðu kostina," segir í niðurlagi bréfs sem nýkjörin sveitarstjórn sendi Breiðdælingum að loknum sínum fyrsta fundi.
Í því eru tilkynnt fimm áhersluatriði hennar: Lækkun skulda, uppbygging atvinnulífs, reglulegir íbúafundir, umhverfismál og að lokið verði við nýtt aðalskipulag sveitarfélagsins.
Til að vinna að atvinnuálunum hefur verið skipaður sérstakur starfshópur sem gera á tillögur til sveitarstjórnarinnar. Níu sitja í hópnum sem Helga Hrönn Melsteð úr sveitarstjórninni veitir formennsku.
Lækkun skulda í samráði við Byggðastofnun og hið opinbera er sögð „forsenda þess að framtíð Breiðdalshrepps verði björt." Því er heitið að mikilvæg mál verði kynnt á íbúafundum og þar hlustað á hugmyndir íbúa.
Stefnan hefur verið sett á að gera Breiðdalshrepp allan að „fyrsta flokks samfélagi í snyrtimennsku og góðri umgengni." Hreppurinn ætlar sjálfur að ganga á undan með góðu fordæmi en skorað er á fyrirtæki og einstaklinga að taka þátt í átaki næstu þrjá mánuðina.
Hákon Hansson var kjörinn oddviti á fundinum og Svandís Ingólfsdóttir varaoddviti. Þá var oddvita falið að undirbúa ráðningu á skólastjóra og sveitarstjóra en bæði embættin þarf að manna upp á nýtt.