Flugvél yfir Austfjörðum hvarf af ratsjám: Kom aftur fram
Mikill viðbúnaður hjá austfirskum björgunarsveitum seinni partinn í dag eftir að neyðarkall barst frá ferjuflugvél sem stödd var um 15 sjómílur frá Egilsstöðum, á milli Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.Stuttu eftir að neyðarkallið barst, rétt fyrir klukkan fimm, hvarf flugvélin af radar og var óttast að hún hefði farið í sjóinn eða í fjöllin milli fjarðanna.
Í frétt frá Landsbjörg kemur fram að allar bjargir á Austurlandi hafi verið kallaðar út, bæði til leitar og björgunar á landi og sjó.
Nokkrum mínútum síðar bárust svo boð frá Isavia um að vélin væri enn á flugi inn Héraðsflóann en færi lágt.
Flugturninn á flugvellinum á Egilsstöðum tilkynnti svo að vélin sæist á flugi yfir Lagarfljóti og lenti hún skömmu síðar, klukkan 17:25, heilu á höldnu á Egilsstaðaflugvelli.
Flugmaðurinn, sem var einn í vélinni, mun hafa talið sig hafa misst stjórn á vélinni vegna bilunar. Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar atvikið.
Flugvélin er af gerðinni Rand Robinson KR-2 smíðuð árið 1999 af Hales fyrirtækinu og skráð í Bretlandi.