Samtök iðnaðarins: Austurland öðrum landsvæðum til eftirbreytni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. júl 2014 14:06 • Uppfært 07. júl 2014 14:09
Stjórn Samtaka iðnaðarins telur mikil tækifæri felast í frekari uppbyggingu iðnaðar á Austurlandi. Stjórnin heimsótti nýverið fjórðunginn og kynnti sér atvinnustarfsemi þar í leiðinni.
Í frétt á vef samtakanna segir að „mikill kraftur og bjartsýni" einkenni viðmælendur á svæðinu. Undanfarinn áratug hafi þar orðið „stórkostlegar breytingar á atvinnulífinu" sem byggist á iðnaði og tæknivæðingu.
Þar séu nú fyrirtæki sem eru í fremstu röð í sinni grein og sérstaklega er tekið fram hversu vel hafi tekist að tengja starf Verkmenntaskóla Austurlands við fyrirtæki á svæðinu. „Þetta ætti að vera öðrum landsvæðum til eftirbreytni," segir í fréttinni.
Í ályktun frá stjórnarfundi sem haldinn var í ferðinni segir að samtökin telji „mikil vaxtartækifæri felast í frekari uppbyggingu iðnaðar á Austurlandi" til dæmis í tengslum við orkuiðnað og matvælavinnslu.
Sterkir innviðir, svo sem bættar samgöngur, menntun og heilbrigðisþjónusta eru hluti af því.
„Samtökin benda á mikilvægi þess að stjórnvöld komi einnig að þessu með því að tryggja góð almenn starfsskilyrði, örugga orkuöflun, virkan útboðsmarkað og að fram fari uppbyggileg umræða um atvinnulífið á faglegum grunni."