Vilja fá 400 hreindýr lánuð í fimm ár til að koma upp hreindýrabúi
Björn Magnússon og Stefán H. Magnússon hafa sótt um það til umhverfis- og landbúnaðarráðuneytisins að fá lánuð 400 dýr úr íslenska hreindýrastofninum til að byggja upp hreindýrabú á norð-Austurlandi. Þeir segja mikinn markað fyrir kjöt af dýrunum bæði hér sem erlendis.Í erindi þeirra til ráðuneytisins óska þeir eftir að fá að hafa dýrin, um 10% íslenska stofnsins, í 5-8 ár. Þeir telja sig getað fjórfaldað kúahópinn á fimm árum.
Að tímanum loknum bjóðast þeir til að skila sama fjölda dýra inn í stofninn, mögulega með vöxtum. Þurfi að minnka veiði hérlendis á þessum tíma er boðið upp á veiði úr hjörð Stefáns á Grænlandi á meðan.
Hann hefur rekið þar bú í 20 ár eftir að hafa lært fagið í Noregi og annast hjarðir í Kanada, Svíþjóð og Alaska. Björn bjó á móti í Vopnafirði í um 20 ár og hefur kynnt sér hreindýrarækt meðal Sama.
Gert er ráð fyrir að búið verði á norð-Austurlandi á jörð sem farinn er í eyði. Byrjað verði með eitt tilraunabú en stækkað ef þurfa þykir. Markmiðið er að fjölga dýrunum í 4000 sem yrði lífsviðurværi fyrir fjórar fjölskyldur.
Dýrin yrðu vistuð á afgirtri ræktunarjörð og fóðruð innan girðingar á veturna líkt og hross en beitt á sumrin í sumarbeitargirðingu.
Þeir telja góða möguleika til ræktunar hérlendis. Stefán hafi flutt inn hreindýrakjöt til Íslands fram til ársins 2008 en síðan snúið sér að Kanadamarkaði. Þeir telja að markaður sé fyrir kjöt hérlendis en einnig í Bandaríkjunum og Frakklandi.
„Það virðist vanta hreindýrakjöt á alla markaði og fæst margfalt hærra verð en fyrir sauðfjárafurðir," segir í erindi þeirra.
Stefán og Björn benda á að hreindýraræktun hafi aukist í sunnanverðri Skandinavíu, einkum í Finnlandi, á síðustu árum. „Hreindýrarækt er alveg eins hægt að stunda á Íslandi eins og í öðrum löndum."
„Þetta yrði góð nýsköpun í landbúnaði og kærkomið tækifæri fyrir sveitina sem hefur átt undir högg að sækja. Áhætta af sjúkdómum sem bærust á milli svæða er engin þar sem þetta er á sama svæði. Hreindýrarækt yrði án allra styrkja."
Erindi Stefáns og Björns er dagsett fyrir ári en í febrúar skipaði ráðherra starfshóp til að fjalla um hugmyndir um hreindýraeldi og ræktun sem nýja búgrein hérlendis. Eitt af aðalverkefnum hópsins er að fjalla um áhrif þess að taka stóran hluta úr þeim stofni sem nú lifir villtur til að koma upp hjörð eldisdýra og skila síðan aftur í hópinn.
Hópurinn á að auki að skoða þætti eins og landnýtingu og beitarálag, dýravelferð og sjúkdómahættu. Skýrsla hópsins á að liggja fyrir eigi síðar en 15. desember.
Í hópnum sitja: Sigurður Á. Þráinnsson, formaður, Níels Árni Lund, Gunnþórunn Ingólfsdóttir, Trausti Baldursson, Gunnlaug H. Einarsdóttir, Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, Hákon Hansson, Skarphéðinn G. Þórisson, Elvar Árni Lund og Eyrún Arnardóttir.
Leiðrétt: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var erindið sagt dagsett 7.7.2014 en það er dagsett 7.7.2013