Trillu bjargað eftir strand í Eskifirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. júl 2014 11:24 • Uppfært 09. júl 2014 11:28
Björgunarsveitin Brimrún á Eskifirði var um miðjan dag í gær kölluð út til að bjarga lítilli trillu sem strandaði að austanverðu í firðinum. Formaður sveitarinnar segir björgunina hafa gengið vel.
„Þetta gekk vonum framar. Við náðum bátnum á flot þegar það kom flóð," segir Bjarni Freyr Guðmundsson formaður Brimrúnar.
Björgunarsveitin var kölluð út um klukkan þrjú til að aðstoða fimm tonna trillu sem siglt hafði í strand að austanverðu í firðinum gegnt þorpinu.
Einn var í bátnum og komst hann sjálfur í land. Aflanum var síðan bjargað í kjölfarið. Trillan sjálf losnaði um klukkan hálf tíu í gærkvöldi.
Síðan var hafist handa við að ná bátnum af strandstað. „Við pössuðum okkur á að þegar vatnaði undir hann myndi hann ekki berjast í steina í fjörunni. Við bundum hann í okkar bát og settum kraft í þegar báturinn byrjaði að hreyfast."
Mynd: Þórlindur Magnússon