Kauptún: Ljóst að búðin verður lokuð í nokkra daga
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. júl 2014 14:09 • Uppfært 14. júl 2014 19:14
Fulltrúar tryggingafélags verslunarinnar Kauptún á Vopnafirði meta nú tjónið sem varð í bruna í versluninni í nótt. Verslunarstjórinn segir ljóst að búðin verði lokuð í nokkra daga en heimamenn séu boðnir og búnir að aðstoða við að koma henni í gang sem fyrst.
„Það er allt tryggt hjá okkur en þeir eru að meta skaðann," segir Nikulás Árnason, verslunarstjóri Kauptúns.
Eldsins varð vart rétt fyrir klukkan fimm í nótt á lager verslunarinnar. Slökkviliðið kom stuttu síðar á staðinn og var búið að slökkva hann um hálf sex.
Lögreglan leitaði að vísbendingum um upptök eldsins í morgun og fulltrúar frá tryggingafélagi Kauptúns lögðu mat á skaðann eftir hádegið.
„Eldurinn var staðbundinn en reykurinn fór út um allt og skemmdirnar liggja í honum," segir Nikulás. Stefnt er að því að hreinsunarstarf hefjist í kvöld eða fyrramálið en óljóst er hversu langt sé þar til búðin opni á ný. „Þetta tekur einhverja daga."
Hann segist hafa fengið jákvæð viðbrögð frá bæjarbúum. „Það eru allir tilbúnir til að aðstoða til að koma þessu í gang aftur."
Mynd: Jón Sigurðarson