Fyrirsagnirnar skaða ferðaþjónustu: Fínasta veður á Austurlandi í allt sumar
Ferðaþjónustuaðili segir fullyrðingar fjölmiðla um vætutíð og vont sumar draga úr ferðum Íslendinga innanlands. Stöðugt þurfi að vera á varðbergi til að koma á framfæri upplýsingum að sólin skíni annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.„Við verðum vör við að fólk ferðast ekki innanlands því samkvæmt fréttum er vont veður á Íslandi," segir Magnfríður Ólöf Pétursdóttir, markaðsstjóri Austurfarar sem rekur meðal annars tjaldstæðið á Egilsstöðum.
Samkvæmt tölum Veðurstofu Íslands var nýliðinn júnímánuður sá næst hlýjasti sem mælst hefur á Egilsstöðum þau sextíu ár sem veðurstöð hefur verið þar.
Því gremst Magnfríði að landsmiðlar slái því upp að „ekkert blíðviðri sé í kortunum" eða „sólin hverfi í viku."
„Það er eiginlega fáránlegt að þurfa alltaf að vera á tánum þegar fréttir um veðrið birtast og standa í því að leiðrétta þann útbreidda skilning að það sé bara vont veður á Íslandi punktur.
Við fáum gesti á til okkar sem eru hissa á því að það sé svona gott veður og að það sé þurrt því ef fylgst er með í fjölmiðlum þá gleymist oft að taka það fram að það er nær eingöngu verið að tala út frá sjónarmiði eins landshluta.
Erlendir ferðamenn eru ekki að ferðast eftir veðri en Íslendingar gera það svo sannarlega og þá er súrt að ekki sé hægt að treysta því að farið sé með rétt mál. Það er bara horft á stöðuna út frá einu landshorni."
Hún segist þó hafa vissa samúð með borgarbúum. „Ég var fyrir sunnan í fjóra daga og það rigndi allan tíman. Ég gat ekki beðið eftir að komast aftur austur í sólina."
Hæsti hiti sem mælst hefur í dag var á Egilsstöðum 19,2¨C og á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, 19°C. Spáð er hlýindum austanlands út vikuna.