Vilhjálmur Hjálmarsson látinn
Vilhjálmur Hjálmarsson, bóndi og fyrrverandi þingmaður og ráðherra lést í dag á heimili sínu Brekku í Mjóafirði, 99 ára að aldri.Vilhjálmur fæddist á Brekku 20. september 1914, sonur Hjálmars Vilhjálmssonar og Stefaníu Sigurðardóttur. Vilhjálmur var kvæntur Önnu Margréti Þorkelsdóttur, sem lést 21. apríl 2008.
Þau eignuðust fimm börn; Hjálmar (látinn 2011), Pál, Sigfús Mar, Stefán og Önnu. Barnabörn Vilhjálms og Margrétar eru 18, barnabarnabörnin 35, barnabarnabarnabörnin fimm og tvö á leiðinni.
Vilhjálmur lauk héraðsskólaprófi frá Laugarvatni 1935. Hann stundaði búskap í um 30 ár, kenndi við barnaskólann í Mjóafirði og sinnti auk þess ýmis konar félagsmálastörfum.
Vilhjálmur sat lengi á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn, fyrst árið 1949, og gegndi embætti menntamálaráðherra 1974-1978.
Þegar þingsetu lauk árið 1979 tóku ritstörf við. Samtals komu út eftir hann 24 bækur sem hann skrifaði sjálfur og þrjár sem hann átti hlutdeild í. Sú síðasta, Örnefni í Mjóafirði, kemur út þann 20. september en þá hefði Vilhjálmur átt 100 ára afmæli.