Nýtt byggingafélag stofnað í Neskaupstað: Mikil þörf á nýju íbúðahúsnæði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. júl 2014 18:06 • Uppfært 22. júl 2014 18:09
Byggingafélagið Nes ehf. var nýverið stofnað í Neskaupstað til að svara ákalli við viðvarandi skort á íbúðahúsnæði. Það hyggst hefja byggingu raðhúss í sumar.
Stofnendur félagsins eru þrír: Samvinnufélag útgerðarmanna sem á 80% hlut og Byggingafélögin Nestak og Nípukollur sem eiga 10% hlut hvort.
Tilgangur félagsins er fyrst og fremst að standa fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis en húsnæðisskortur hefur verið viðvarandi í Neskaupstað að undanförnu og mikil þörf á nýju íbúðarhúsnæði. Félagið hefur að undanförnu haft samráð við bæjaryfirvöld hvað varðar byggingalóðir.
Þegar hefur verið tekin ákvörðun um fyrsta verkefni félagsins en það felst í byggingu fjögurra íbúða raðhúss við Sæbakka 25. Íbúðirnar verða 97 fermetrar að stærð auk 26 fermetra bílskúrs. Framkvæmdir við byggingu hússins munu hefjast síðar í sumar en gert er ráð fyrir að þeim ljúki á næsta ári.
Fyrirhugað er að selja íbúðirnar á ýmsum byggingastigum, allt eftir óskum væntanlegra kaupenda. Þegar er farið að hyggja að áframhaldandi byggingaframkvæmdum á vegum félagsins.
Stjórn þessa nýja félags skipa þeir Magnús Jóhannsson sem er stjórnarformaður, Róbert Jörgensen og Sigurjón Kristinsson . Framkvæmdastjóri Byggingafélagsins Ness er Freysteinn Bjarnason