Skip to main content

Fimmtíu keppendur í Urriðavatnssundi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. júl 2014 19:15Uppfært 27. júl 2014 23:24

urridavatnssund 0049 webUm fimmtíu keppendur eru skráðir til leiks í Urriðavatnssundi og hafa aldrei verið fleiri. Sundið verður þreytt í fimmta sinn á morgun.


Ræst verður klukkan tíu og eru þrjár vegalengdir í boði: 2.500 metra landvættasund, 1.250 metra hálft sund og 400 metra skemmtisund.

Ræst er úr víkinni við Hitaveitutangann og synt fyrir hann. Þeir sem synda lengri sundin synda þaðan áfram út í vatnið fyrir baujur og aftur til baka fyrir tangann og inn í víkina. Þeir sem fara í skemmtisundið synda hins vegar fyrir tangann og í mark í víkinni sunnan hans.

Urriðavatn er eitt stærsta vatnið á Fljótsdalshéraði, um 100 hektarar að flatarmáli, rúmir tveir kílómetrar á lengd og um hálfur kílómetri að breidd. Um 1960 kom í ljós að þar er jarðhitasvæði á botni vatnsins og í því eru borholur sem standa undir Hitaveitu Egilsstaða og Fella.

Í vatninu er sagt vera furðudýr sem kallast Tuska og bera lýsingar á henni keim af otrum. Tuska sást síðast um 1900 og sundmenn hafa ekki orðið hennar varir.

Sundið er ein fjögurra keppna í Landvættaröðinni, en í henni eru einnig Bláalónsþrautin, Fossavatnsgangan og Jökulsárhlaupið. Þeir sem klára þrautirnar fjórar kallast landvættir. Svanhvít Antonsdóttir er til þessa eini Austfirðingurinn sem hefur hlotið þá nafnbót.