Reynir á þingmenn Austurlands að styðja við millilandaflug um Egilsstaði

maria hjalmarsdottir webÍslensk stjórnvöld þurfa að taka ákvörðun um hvernig þau vilja haga ferðamannastraumi inn í landið á komandi árum. Meðal annars þarf að ræða hvort opna eigi aðra gátt inn í landið en Keflavíkurflugvöll og hvar hún eigi að vera.

„Norðanmenn, líkt og við hér fyrir austan, hafa unnið að því að sannfæra stjórnvöld um að rétt sé að fara þá leið að opna nýja gátt inn í landið fyrir alþjóðlegan flugumferð. Þingmenn landshlutanna hafa stutt málið og á næstu árum mun reyna enn frekar á þá, ekki síst hér á Austurlandi," segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Greenland Express reyndi í sumar að hefja flug milli Akureyrar og Danmerkur en hætt var við áður en fyrsta ferðin var farin. Norðlendingar hafa hins vegar undanfarin misseri róið að því að koma á millilandaflugi frá Akureyrarflugvelli. Við hafa bæst hugmyndir um uppbyggingu flugvallanna við Sauðárkrók og Húsavík.

Umræðan um flugvellina er hluti af aukinni umræðu um stefnu í ferðamannamálum í ljósi vaxandi fjölda þeirra. 

„Á undanförnum misserum hefur umræðan um þróun ferðamennsku á Íslandi orðið æ háværari; hvernig viljum við sjá ferðamennsku á Íslandi þróast; viljum við fá fleiri ferðamenn, viljum við ákveðna tegund af ferðamönnum, viljum við beina þeim á ákveðna staði og hvernig gerum við það, hvernig verndum við náttúruna og aðdráttarafl Íslands sem ferðamannastaðar, þolir landið áganginn og svo framvegis."

Í dag koma ferðamenn aðallega til Íslands í gegnum Keflavíkurflugvöll en hluti kemur einnig með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar. María segir það pólitíska spurningu um hvort opna eigi fleiri gáttir inn í landið.

„Spurningin um það hvort rétt sé að gera ráð fyrir annarri gátt inn í landið er ein þessara spurninga og hún, líkt og áðurnefndar spurningar, er háð pólitískum vilja og ákvörðunum.

Hvað næstu skref hér eystra varðar, þá munum við halda áfram nauðsynlegri innviðagreiningu samhliða því að leggja áfram áherslu á mikilvægi þessa verkefnis gagnvart stjórnvöldum með hjálp stjórnmálamanna frá Austurlandi. Þetta mál varðar alla Austfirðinga og á að vera eitt af aðal baráttumálum okkar sem við öll getum sameinast um."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.