Varað við hvassviðri á suðausturlandi á morgun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. ágú 2014 14:47 • Uppfært 15. ágú 2014 14:48
Búast má við hvassviðri á landinu í nótt og fram eftir morgundeginum segir Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni.
„Í kjölfar krapprar lægðar sem fer í nótt austur með suðurströndinni, mun hvessa af norðri um land allt í nótt og framan af morgundeginum, verður víða þetta 13-18 m/s um tíma.
Varasamar vindhviður, allt að 30-40 m/s, verða við þessar aðstæður á þjóðveginum suðaustanlands frá Fagurhólsmýri í Öræfum austur á Berufjarðarströnd frá því snemma í fyrramálið og fram yfir miðjan dag.
Suðaustanlands fylgir gjarnan sandfok veðri eins og þessu, jafnvel þó svo að rigni eitthvað á undan í kvöld."
Þeir sem hugsa sér til hreyfings næsta sólarhringinn, einkum húsbíla-, eftirvagna- og bifhjólaferðalanga að huga vel að veðri og vindum áður en lagt er af stað. Búast má við að vindurinn taki vel í tjöld og vagna á vestur-, suður- og suðausturlandi.
Tjaldbúar og ferðalangar á húsbílum eru varaðir við hvassviðri á morgun.