Sumarbústaður í Seldal illa farinn eftir eldsvoða
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. ágú 2014 14:08 • Uppfært 19. ágú 2014 15:14
Sumarbústaður í Seldal í Norðfjarðarsveit er illa farinn eftir eldsvoða í dag. Einn var í bústaðnum og var hann fluttur á sjúkrahús með grun um reykeitrun.
Slökkviliði Fjarðabyggðar barst tilkynning frá Neyðarlínunni klukkan 13:32 í dag og var komið á vettvang tíu mínútum síðar. Greiðlega gekk að slökkva eldinn sem logaði glatt þegar slökkviliðið kom á vettvang og svo virðist þá hafa kraumað í nokkurn tíma.
Einn var í bústaðnum þegar eldurinn kom upp og reyndi hann að ráða niðurlögum eldsins með slökkvitæki. Það gekk þó ekki og var honum hjálpað út af manni úr nágrenninu. Sá fyrrnefndi var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað með grun um reykeitrun.
Sumarbústaðurinn stendur enn uppi en tjónið virðist töluvert þar sem hann er illa farinn eftir eldsvoðann. Eldsupptök eru ókunn.
Mynd: Kristín Hávarðsdóttir