Bárðarbunga: Fundur með hagsmunaaðilum fyrirhugaður á Egilsstöðum á morgun
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra stefnir á að funda með hagsmunaaðilum á Austurlandi á Egilsstöðum í fyrramálið út af mögulegu eldgosi í Bárðarbungu.Á fundinum munu fulltrúar almannavarna, lögreglunnar og vísindamenn gera ráð fyrir stöðunni og fara yfir aðgerðir. Fundinn sækja viðbragðsaðilar og hagsmunaaðilar svo sem fulltrúar sveitarfélaga, bænda og heilbrigðisstofnana.
Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Sif flaug yfir svæðið með vísindamenn í gær og lenti til að taka eldsneyti á Egilsstöðum rétt fyrir klukkan fimm í gær. Teknar voru myndir af jarðskjálftasvæðinu en einnig svipast um eftir fólki norðan Dyngjujökuls en svæðið var rýmt í fyrrakvöld.
Rýming svæðisins gekk vel og er ekki vitað um mannaferðir við Kverkfjöll, Dreka og Herðubreiðarlindir. Rýmingu var fylgt eftir í gær og farið í frekari eftirgrennslan inn á lokaða svæðið.
Þá voru vísindamenn frá Veðurstofunni voru á ferð á jöklinum í gær, annars vegar við Kverkfjöll og hins vegar í nánd við Brúarárjökul. Tilgangur ferðarinnar var að koma fyrir jarðskjálftamælum og GPS stöðvum.
Þá sinna björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hálendisvakt og passa upp á að lokanir séu virtar. Félagar úr Ísólfi á Seyðisfirði sjá um gæslu um þessar mundir.
Skjálftavirknin í nótt hefur verið mikil og stöðug eins og undanfarið, langflestir skjálftarnir mælast við innskotið undir Dyngjujökli á sömu slóðum og í gær og virðast ekki hafa færst norðar í nótt. Flestir voru á 8-11 km dýpi en nokkrir (undir morgun) voru á um 5-6 km dýpi. Tveir skjálftar að stærð 3,0 urðu seint í gærkvöldi og nótt.
Eftirfarandi hálendisvegir eru lokaðir í samráði við Almannavarnir: F- 910 Austurleið (Dyngjufjallaleið), F903 Hvannalindavegur, F902 Kverkfjallaleið, F905 Arnardalsleið og F88 Öskjuleið.