Skip to main content

SAM - félagið tekur yfir MAKE by Þorpið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. sep 2014 09:39Uppfært 03. sep 2014 09:40

samfelagid austurbruÍ gær var undirritaður samningur milli Austurbrúar og SAM-félagsins, grasrótarfélags skapandi fólks á Austurlandi, sem kveður á um yfirfærslu verkefnisins MAKE by Þorpið til SAM-félagsins. Fram til þessa hefur Austurbrú hýst verkefnið sem hefur það að markmiði að efla skapandi samfélag á Austurlandi.


MAKE by Þorpið er afsprengi verkefnisins Þorpsins sem var tilraunaverkefni og hafði að meginmarkmiði að efla atvinnusköpun á sviði vöruhönnunar og listhandverki úr staðbundnum hráefnum á Austurlandi.

Evrópuverkefni Þorpsins, Creative communities, til eflingar skapandi samfélags á Austurlandi var unnið á árunum 2010 – 2012 og í kjölfarið af því var ljóst að nauðsynlegt yrði að marka stefnu til framtíðar um hvernig nýta ætti þá þekkingu, reynslu, tengslanet og afurðir sem mynduðust í tilraunaverkefninu.

Til varð þekking og reynsla í samstarfi við grasrót skapandi fólks á Austurlandi, sem leiddi af sér hugmyndafræði og huglægt samfélag sem gengur undir nafninu MAKE by Þorpið. Kjarni þeirrar hugmyndafræði snýr að samstarfi um markaðssetningu, sjálfbærnihugsun, samnýtingu og fagmennsku á sviði hönnunar og listhandverks.

Fram til þessa hefur MAKE by Þorpið verið hýst hjá Austurbrú en frá og með undirritun samningsins í gær mun SAM-félagið, grasrótarfélag skapandi fólks á Austurlandi, taka verkefnið yfir.

Þá verður vefurinn Make.is, auðkennið MAKE by Þorpið og hugmyndafræði verkefnisins eign SAM-félagsins og mun áfram nýtast til kynningar og markaðssetningar á MAKE hugmyndafræði og verkefnum.

Samningurinn kveður á um að Austurbrú leggi félaginu starfsmann í skilgreind verkefni til tveggja ára sem öll lúta að því að efla uppbyggingu á sviði hönnunar og listhandverks og virkjun hugmyndafræði MAKE by Þorpið.

Framundan er endurskipulagning á vefnum make.is og virkjun hans ásamt kynningu á SAM félaginu og hugmyndafræði MAKE by Þorpið. Stjórn félagsins skipa Ingunn Þráinsdóttir, Íris Lind Sævarsdóttir, Steinrún Ótta Stefánsdóttir og Ólöf Björk Bragadóttir.

Frá vinstri: Lára Vilbergsdóttir hjá Austurbrú, Steinrún Ótta Stefánsdóttir og Ingunn Þráinsdóttir, stjórnarmenn SAM félagsins og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar við undirritun samningsins í gær. Mynd: Austurbrú.