SAM - félagið tekur yfir MAKE by Þorpið

samfelagid austurbruÍ gær var undirritaður samningur milli Austurbrúar og SAM-félagsins, grasrótarfélags skapandi fólks á Austurlandi, sem kveður á um yfirfærslu verkefnisins MAKE by Þorpið til SAM-félagsins. Fram til þessa hefur Austurbrú hýst verkefnið sem hefur það að markmiði að efla skapandi samfélag á Austurlandi.

MAKE by Þorpið er afsprengi verkefnisins Þorpsins sem var tilraunaverkefni og hafði að meginmarkmiði að efla atvinnusköpun á sviði vöruhönnunar og listhandverki úr staðbundnum hráefnum á Austurlandi.

Evrópuverkefni Þorpsins, Creative communities, til eflingar skapandi samfélags á Austurlandi var unnið á árunum 2010 – 2012 og í kjölfarið af því var ljóst að nauðsynlegt yrði að marka stefnu til framtíðar um hvernig nýta ætti þá þekkingu, reynslu, tengslanet og afurðir sem mynduðust í tilraunaverkefninu.

Til varð þekking og reynsla í samstarfi við grasrót skapandi fólks á Austurlandi, sem leiddi af sér hugmyndafræði og huglægt samfélag sem gengur undir nafninu MAKE by Þorpið. Kjarni þeirrar hugmyndafræði snýr að samstarfi um markaðssetningu, sjálfbærnihugsun, samnýtingu og fagmennsku á sviði hönnunar og listhandverks.

Fram til þessa hefur MAKE by Þorpið verið hýst hjá Austurbrú en frá og með undirritun samningsins í gær mun SAM-félagið, grasrótarfélag skapandi fólks á Austurlandi, taka verkefnið yfir.

Þá verður vefurinn Make.is, auðkennið MAKE by Þorpið og hugmyndafræði verkefnisins eign SAM-félagsins og mun áfram nýtast til kynningar og markaðssetningar á MAKE hugmyndafræði og verkefnum.

Samningurinn kveður á um að Austurbrú leggi félaginu starfsmann í skilgreind verkefni til tveggja ára sem öll lúta að því að efla uppbyggingu á sviði hönnunar og listhandverks og virkjun hugmyndafræði MAKE by Þorpið.

Framundan er endurskipulagning á vefnum make.is og virkjun hans ásamt kynningu á SAM félaginu og hugmyndafræði MAKE by Þorpið. Stjórn félagsins skipa Ingunn Þráinsdóttir, Íris Lind Sævarsdóttir, Steinrún Ótta Stefánsdóttir og Ólöf Björk Bragadóttir.

Frá vinstri: Lára Vilbergsdóttir hjá Austurbrú, Steinrún Ótta Stefánsdóttir og Ingunn Þráinsdóttir, stjórnarmenn SAM félagsins og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar við undirritun samningsins í gær. Mynd: Austurbrú.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.