Starfshópur skipaður um gjaldtöku í innanlandsflugi: Valdimar O. fulltrúi Austurlands

valdimar o hermannsson ssa13Valdimar O. Hermannsson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, hefur verið skipaður í starfshóp innanríkisráðherra um gjaldtöku í innanlandsflugi. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili af sér tillögum í október.

Starfshópnum er ætlað að skoða skatta og gjöld sem lögð eru á flugrekstur í áætlunarflugi innanlands, þar með talin flugþjónustugjöld, svo sem farþegagjöld, lendingagjöld, flugleiðsögugjald og svokölluð ETS gjöld á grundvelli losunar gróðurhúsalofttegunda auk annarra gjalda af flugvélaeldsneyti.

Jafnframt á hópurinn að skoða kostnað við þá þjónustu sem veitt er á grunni þessara gjalda og gera tillögur að úrbótum ef ástæða er til.

Innanríkisráðherra hét að skipa hópinn í febrúar eftir fund með hagsmunaaðilum á Austurlandi. Upphaflega var gert ráð fyrir að hann skilaði af sér fyrir sumarið en það tefst þar sem hópurinn var ekki fullskipaður fyrr en í lok júlí.

„Nú þegar hafa verið haldnir þrír fundir, í starfshópnum, meðal annars. með aðkomu Isavia og fleiri hagsmunaaðilum," segir Valdimar um vinnu hópsins en hann er tilnefndur í hann af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Okkur er ætlað að skoða þær leiðir sem mögulegar eru til að ná fram lækkun á fargjöldum í innanlandsflugi, en sá kostnaður er orðinn verulega íþyngjandi fyrir meðal annars fyrir fyrirtæki stofnanir og íbúa á landabyggðinni."

Auk Valdimars eru í hópnum þingmennirnir Valgerður Gunnarsdóttir, formaður og Steingrímur J. Sigfússon, sérfræðingarnir Björney Inga Björnsdóttir og Viðar Helgason sem tilnefnd eru af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, sem tilnefndur er af Samtökum atvinnulífsins.

Ásta Þorleifsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu innviða hjá innanríkisráðuneytinu, verður starfsmaður hópsins.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.