Flutningaskip strandaði í Reyðarfirði: Mikill leki og hætta á mengunarslysi

reydarfjordur hofnAkrafell, skip Samskipa, strandaði á skeri við Vattarnes milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar á fimmta tímanum í morgun. Mikill leki kom að skipinu og skipverjar hafa verið fluttir um borð í björgunarskip.

Allar björgunarsveitir á Austfjörðum voru kallaðar út og rúmum 20 mínútum eftir útkall voru fyrstu björgunarskipin komin á vettvang. Hópar björgunarmanna voru einnig sendir landleiðina á svæðið með fluglínutæki ef á þyrfti að halda. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig ræst út.

Tólf manns voru um borð í skipinu og hófu skipverjar þegar dælingu úr skipinu en þær höfðu ekki undan. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hafa átta skipverjar verið fluttir um borð í björgunarskip. Björgunarsveitamenn eru farnir um borð með dælur og fleiri eru á leiðinni.

Hætta er talin vera á olíumengun og hefur Slökkvilið Fjarðabyggðar því einnig verið kallað út. Skipið er engin smásmíði, 137 metra langt, og var á leið til Reyðarfjarðar eftir að hafa siglt frá Reykjavík um Ísafjörð og Akureyri.

Mynd: Úr Reyðarfjarðarhöfn

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.