Skip to main content

Flutningaskip strandaði í Reyðarfirði: Mikill leki og hætta á mengunarslysi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. sep 2014 10:31Uppfært 06. sep 2014 10:31

reydarfjordur hofnAkrafell, skip Samskipa, strandaði á skeri við Vattarnes milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar á fimmta tímanum í morgun. Mikill leki kom að skipinu og skipverjar hafa verið fluttir um borð í björgunarskip.



Allar björgunarsveitir á Austfjörðum voru kallaðar út og rúmum 20 mínútum eftir útkall voru fyrstu björgunarskipin komin á vettvang. Hópar björgunarmanna voru einnig sendir landleiðina á svæðið með fluglínutæki ef á þyrfti að halda. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig ræst út.

Tólf manns voru um borð í skipinu og hófu skipverjar þegar dælingu úr skipinu en þær höfðu ekki undan. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hafa átta skipverjar verið fluttir um borð í björgunarskip. Björgunarsveitamenn eru farnir um borð með dælur og fleiri eru á leiðinni.

Hætta er talin vera á olíumengun og hefur Slökkvilið Fjarðabyggðar því einnig verið kallað út. Skipið er engin smásmíði, 137 metra langt, og var á leið til Reyðarfjarðar eftir að hafa siglt frá Reykjavík um Ísafjörð og Akureyri.

Mynd: Úr Reyðarfjarðarhöfn