Lítið sofið á Vattarnesi í gær – Myndir
Tugir björgunarsveitamanna af Austurlandi tóku þátt í björgunaraðgerðum flutningaskipsins Akrafells við Vattarnes í gær. Skipið kom til hafnar á Eskifirði klukkan fjögur nótt, um sólarhring eftir að það strandaði.Það var fjölveiðiskipið Aðalsteinn Jónsson sem náði Akrafellinu á flot á háflóði tvær mínútur fyrir miðnætti í gærkvöldi. Upphaflega átti að fara með Akrafellið til Reyðarfjarðar en á miðri leið var ákveðið að fara til Eskifjarðar og tekin kröpp beygja.
Með í för voru varðskipið Ægir, hafnsögubáturinn Vöttur og Hafbjörg, skip Landsbjargar úr Neskaupstað.
Við komuna Við komuna til hafnar var unnið áfram að dælingu úr vélarrúmi skipsins. Engin mengun er sjáanleg. Ástandið er talið stöðugt og hefur skipið nú verið afhent eigendum sem eru Samskip og hafnaryfirvöldum á Eskifirði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Í morgun var byrjað að afferma skipið.
Akrafellið var að koma frá Akureyri og átti að fara til Reyðarfjarðar þegar það strandaði um hálfan kílómeter frá landi í mynni fjarðarins. Reyðarfjörður átti að vera síðast viðkomustaður skipsins hérlendis áður en það héldi áfram til Færeyja, Englands og loks Rotterdam í Hollandi.
Tugir austfirskra björgunarsveitamanna komu að björguninni í gær en þeir voru bæði í landi og á sjó. Skipst var á vöktum um borð í skipinu þar sem reynt var að dæla sjó úr vélarrúmi þess. Nokkrir björgunarsveitarmenn voru fluttir á sjúkrahúsið í Neskaupstað í morgun vegna eitrunar frá útblæstri en fengu að fara heim fyrir hádegið.
Heimilisfólk að Vattarnesi svaf lítið í gær en miðstöð björgunar í landi var í bæjarhlaðinu. Kindurnar kipptu sér ekkert upp við lætin og lágu og jórtruðu þótt tvær þyrlur væru þar á ferðinni. Bændur á bænum fengu reyndar far suður í borgina með annarri þyrlunni upp úr hádegi.
Austurfrétt var á staðnum og fylgdist með aðgerðum í gærdag.