Ekki nema rúm 500 ár síðan gjóska úr Bárðarbungukerfinu dreifðist yfir Austurland

eldgos flug 0199 webJarðfræðingur telur að verði gjóskugos í Bárðarbungukerfinu séu talsverðar líkur á að gjóskan dreifist í nokkrum mæli yfir Austurland miðað við fyrirliggjandi vitneskju um eldri atburði. Hann beinir því til manna að huga að hugsanlegum vörnum ef kemur til gjóskugoss.

„Það eru ekki nema rúmlega 500 ár síðan gjóska úr þessu eldstöðvakerfi dreifðist yfir Austurland," segir Jón Benjamínsson, jarðfræðingur.

Jón hefur séð og fylgst með flestum íslenskum eldgosum frá og með Öskjugosinu árið 1961 nema þeim þremur síðustu og svo yfirstandandi gosi.

„Nú hef ég bara fylgst með úr fjarska og er ánægður með hve mikið er fjallað um gosið í fjölmiðlum. Satt best að segja gæti orðið stórgos í Bárðarbungukerfinu, sem einnig er kennt við Veiðivötn og Dyngjufjöll."

Á árunum 1477-1480 dreifðist gjóska um miðhálendið og Norðausturland en hún kom að líkindum að mestu úr Veiðivatnadældinni.

Jón kveðst hugsi yfir heimild um þykktardreifingu gjóskunnar, eins og hún er til dæmis sýnd í bókinni „Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar" og birt var í svari á Vísindavef Háskóla Íslands nýverið.

„Á þessum stað sem við erum hefur þykktin á öskulaginu frá árunum 1477-1480 líklega verið um fjórir sentímetrar," segir Jón en Austurfrétt hitti á hann í miðbæ Egilsstaða í síðustu viku.

„Ég er dálítið hugsi yfir greininni því þar er þykkt gjóskunnar um Mið-Austurland sýnd heldur minni en komið hefur fram á þykktardreifingarkortum frá árunum 1975, 1981 og 1982. Að auki er aðalstefna dreifigeirans norðan Vatnajökuls sýnd í norðaustur en samkvæmt eldri mælingum er hún í austnorðaustur.

Ég vona samt að þetta valdi ekki andvaraleysi því eins og ég sagði áðan getur gos í þessu eldstöðvakerfi orðið að stóratburði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir atvinnulíf og afkomu þeirra sem fyrir öskufalli verða, að ekki sé minnst á hugsanlegt hraunrennsli í öðrum landshlutum."

Gosið nú er staðsett í Holuhrauni, skammt norðan við Dyngjujökul. Fram hefur komið í fjölmiðlum að það hafi runnið árið 1797 en Jón telur að það sé mögulega eldra.

„Ég hef hvergi rekist á sannfærandi rannsókn sem styður þetta ártal og finnst því glæfralegt að líma það við Holuhraun án vísindalegs stuðnings. Ég hef einu sinni komið að Holuhrauni og mín upplifun var að það væri eldra heldur en frá 1797."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.