Aska á Hallormsstað?
Íbúar á Hallormsstað hafa undanfarna tvo daga orðið varir við fíngert ryk sem fallið hefur á bíla. Almannavarnir eru með málið til skoðunar en eru ekki reiðubúin að staðfesta hvort um öskufall sé að ræða.Þórunn Hálfdanardóttir, íbúi á Hallormsstað, segir að fyrst hafi orðið vart við að rykið lægi á bílum í gærmorgun en meira hafi verið í morgun. Þá hafi einnig sést rastir eða flekkir á Lagarfljóti sem menn kenni falli jarðefna.
„Við vorum að ræða það í gær hvort þetta gæti verið moldrok, en það hefur verið svo lygnt undanfarna daga að það kemur eiginlega ekki til greina,“ segir Þórunn. Hún segist telja að þetta geti verið eitthvað í ætt við vikur.
„Þetta er ekki gosaska eins og ég sá í Reykjavík þegar Eyjafjallajökull gaus. Þetta er fíngerðara og brúnna á litinn. Þessar rastir á Fljótinu geta líka bara myndast ef efnið flýtur ofan á.“
Austurfrétt hafði samband við Veðurstofu Íslands og Almannavarnir en gat ekki fengið staðfest að um ösku eða vikur gæti verið að ræða.
Almannavarnir staðfestu þó að þeim hefðu borist ábendingar um málið. Nú stendur yfir Vísindaráðsfundur þar sem m.a. er farið yfir dreifingu gosefna.
Mynd: Fíngert ryk á bifreið Þórunnar. - SBS
Mynd: Fíngert ryk á bifreið Þórunnar. - SBS