Veruleg mengun í Reyðarfirði: Ekkert mældist á Egilsstöðum
Veruleg mengun var á Reyðarfirði í dag af völdum brennisteinsdíoxíðs úr Holuhrauni og Umhverfisstofnun hvetur fólk til að vera á varðbergi. Tveir nýir mælar hafa verið settir upp.Styrkur brennisteinsdíoxíðs í lofti fór alveg upp að efri vinnuverndarmörkum um klukkan 14 í dag. Í kjölfarið sendu Almannavarnir frá sér tilkynningu um að börn og þeir sem eru viðkvæmir fyrir ættu að halda sig innan dyra. Þegar þessi frétt er skrifuð hafa gildin á mælum farið hækkandi á ný og stefnir í nýjan topp.
Að sögn Þorsteins Jóhannessonar teymisstjóra hjá Umhverfisstofnun er þetta fordæmalaust. „Þetta var mjög skarpur toppur og mjög hár. Vinnuverndarmörk eru tvískipt. Annars vegar eru það gildi fyrir heilan vinnudag sem liggja í 1300, þannig að mæligildi mega fara yfir það svo lengi sem meðaltalið yfir daginn er undir. Hins vegar eru það efri mörkin sem eru í 2600. Ef farið er yfir þau mörk á að hætta störfum. Toppurinn á Reyðarfirði í dag náði 2550 svo það var ansi nálægt þessum efri mörkum.“
Mengunin í dag var mun meiri en á laugardag þegar hún var áður mest. Þorsteinn hvetur fólk til að hafa augun hjá sér. „Þetta í dag var kannski ekki stórhættulegt, en mjög óþægilegt. Þeir sem lentu í þessu hafa lýst þessu eins og vera þétt við stóran díselbíl í gangi, þannig að þessu hefur fylgt sviði og óþægindi.“ Hann segir að af lýsingum af dæma hafi allþykkt mengunarský lagst nokkuð skyndilega yfir. Þetta sé að öllum líkindum tilkomið vegna mikill hvassviðris á gosstöðvunum, en vindurinn slái gufunum niður að jörðinni aftur.
„Ég hvet fólk til að hafa augun hjá sér og bregðast við ef það sér annan eins mökk vera að leggjast yfir. Þá er ég að tala um eitthvað í líkingu við það sem gerðist í dag frekar en eins og móðuna sem var yfir á laugardag. Mælarnir nema mengunina en það tekur sinn tíma að koma út tilkynningum og því er best ef fólk hefur augun hjá sér og einfaldlega heldur sig innan dyra ef það verður vart við svona mengunarský.“
Þrír loftgæðamælar eru í Reyðarfirði í tengslum við eftirlit með starfsemi Alcoa Fjarðaáls þar. Aðspurður segir Þorsteinn að þótt um sé að ræða samanlagða mengun frá álverinu og gosstöðvunum þá vegi álverið nánast ekki neitt þegar gildin verða eins há og raun ber vitni í dag. „Gildin þaðan týnast alveg í svona stórum toppi.“
Umhverfisstofnun hefur sett upp tvo nýja mæla í tengslum við eldsumbrotin. Annar þeirra er við Mývatn en hinn á Egilsstöðum. „Það mældist nánast ekkert á Egilsstöðum á sama tíma og þessi toppur kom á Reyðarfirði. Það var bara tært háfjallaloft þar.“ Upplýsingar úr mælum stofnunarinnar má finna á vefsíðunni www.loftgaedi.is, en Þorsteinn segir hana því miður ennþá ekki alveg nógu notendavæna. Unnið sé að því að bæta úr því þannig að sem flestir geti nálgast mæligildi án vandræða til að geta fylgst með.
Austurfrétt hefur fengið ábendingar um að mikil mengun hafi verið í Breiðdal um helgina og ljóst er að hennar hefur orðið vart víðar á Austurlandi. Þorsteinn segir Umhverfisstofnun ekki hafa tök á því að setja upp mæla allsstaðar þar sem mengunar geti orðið vart.
„Við höfum ekki tök á að mæla allsstaðar. Veðurstofan hefur hins vegar verið að reikna út stefnu og dreifingu á gosmekkinum og við reynum að fylgjast með í samræmi við það.“
Mynd: Línurit sem sýnir þróun dagsins á loftgæðamælum í Reyðarfirði. - www.loftgaedi.is