Akrafellið flutt til Mjóeyrarhafnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. sep 2014 17:11 • Uppfært 12. sep 2014 17:14
Til stendur að flytja Akrafell, flutningaskip Samskipa sem strandaði við Vattarnes fyrir viku, úr Eskifjarðarhöfn til Mjóeyrarhafnar í dag. Þar stendur til að afferma skipið.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Samskip sendu frá sér síðdegis. Akrafellið hefur verið bundið við bryggju á Eskifirði síðan á sunnudagsmorgun þar sem unnið hefur verið við að þétta skipið og koma í veg fyrir frekara tjón og fyrirbyggja mengun.
„Dæling úr skipinu gengur vel og tæknimenn vinna að því lágmarka tjón í vélarrúmi," segir í tilkynningunni.
„Áætlað er að flytja skipið að Mjóeyri við Reyðarfjörð þar sem farmurinn verður losaður. Gert er ráð fyrir að losun farms hefjist á morgun. Undirbúningur og framkvæmd á flutningi skipsins er unnin í samráði við hlutaðeigandi aðila."
Dráttarbátur frá Höfn í Hornafirði, Björn Lóðs og hafnsögubáturinn Vöttur munu aðstoða við flutning á Akrafellinu frá Eskifirði til Reyðarfjarðar.