Skip to main content

Fara fram á fleiri mæla til að vakta brennisteinsmengun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. sep 2014 08:57Uppfært 18. sep 2014 15:46

elfa hlin petursdottir mai14Forsvarsmenn austfirskra sveitastjórna virðast margir hverjir uggandi yfir því að aðeins séu mælar á tveimur stöðum til að mæla mengun frá eldgosinu í Holuhrauni. Víða er þrýst á að fjölgað verði mælum.


Einn mælir er í dag á Egilsstöðum og þrír í Reyðarfirði en þeir tengjast allir álveri Alcoa. Þá hefur Umhverfisstofnun komið upp mælum í Mývatnssveit og á Akureyri vegna gossins og unnið er að því að koma þeim upp í fleiri landsfjórðungum.

Í kjölfar mikillar mengunar víða í Fjarðabyggð um síðustu helgi var skírt frá því að forsvarsmenn sveitarfélagsins hefðu óskað eftir fleiri mælum.

Þá kemur fram í fundargerð hreppsnefndar Vopnafjarðarhrepps frá í gær að sveitarstjóri hafi óskað eftir að settur verði upp mælir til að mæla mengun frá gosinu.

Á heimasíðu Seyðisfjarðarlistans, sem er í minnihluta bæjarstjórnar, er birt bréf frá oddvita hans, Elfu Hlín Pétursdóttur, til Umhverfisstofnunar þar sem meðal annars er farið fram á að mælar verði settir upp í fleiri þéttbýlisstöðum.

Þar kemur fram að Seyðfirðingar hafi fundið fyrir þeirri miklu mengun sem lagðist yfir mið-Austurland síðasta föstudagskvöld og spurt hví SMS-boðin hafi ekki verið send á Seyðfirðinga líkt og íbúa í Fjarðabyggð.

Þá er spurt hvort mengunin hafi áhrif á vatnsból bæjarbúa en neysluvatn er tekið úr opnu vatnsbóli. Sýni hafa síðan verið tekin úr vatnsbólinu en ekki eru taldar miklar líkur á mengun í því.

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, mætir á þing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á Vopnafirði um helgina og ætlar að tala við sveitarstjórnarmenn um hvernig þeir geti undirbúið sín sveitarfélög fyrir áframhaldi jarðhræringar.