Green Freezer: Aðstæður endurmetnar eftir að taugin slitnaði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. sep 2014 14:45 • Uppfært 19. sep 2014 14:45
Ekki tókst að draga flutningaskipið Green Freezer af strandstað í Fáskrúðsfirði á hádegi eins og vonir stóðu til. Taug varðskipsins Þórs slitnaði við átakið.
Taugin slitnaði þegar komið var yfir 100 tonna átak og því þykir ljóst að skipið sitji mjög fast á strandstað, að því er fram kemur í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.
Útgerð skipsins hafði lagt fram áætlun um að það yrði dregið af strandstað með hafnsögubátnum Vetti en talsmenn gæslunnar segja atvikið í hádeginu undirstrika að þær áætlanir hafi ekki verið raunhæfar.
Yfirstjórn aðgerða um borð í Þór vinnur nú að endurmati aðgerða í samráði við aðra viðbragðsaðila.
Mynd: Þórlindur Magnússon