Sigrún Blöndal nýr formaður SSA
Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, er nýr formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.Sigrún kemur ný inn í stjórnina en hún hefur verið bæjarfulltrúi Héraðslistans frá árinu 2010 og tók í vor við sem forseti bæjarstjórnar.
Þrjú halda áfram úr fráfarandi stjórn, þau Gauti Jóhannesson á Djúpavogi, Arnbjörg Sveinsdóttir á Seyðisfirði og Jón Björn Hákonarson úr Fjarðabyggð.
Ný inn í stjórn koma auk Sigrúnar þeir Gunnar Jónsson, Fljótsdalshéraði og Stefán Grímur Rafnsson, Vopnafirði og Hákon Hansson, Breiðdalsvík.
Sigrún var kosin formaður á fyrsta fundi nýrrar stjórnar sem haldin var að loknum aðalfundi SSA á Vopnafirði á laugardag. Hún tekur við af Valdimar O. Hermannssyni, bæjarfulltrúa úr Fjarðabyggð, sem gegndi stöðunni 2010-2014.
Sigrún hefur áður setið í stjórn SSA og stjórn Austurbrúar auk þess að sitja í starfshópum og nefndum á vegum Fljótsdalshéraðs, SSA og Sambands íslenskra sveitarfélaga.