Knattspyrna: Fjarðabyggð þarf að byggja stúku
Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF) hefur óskað eftir liðsinni bæjaryfirvalda við að byggja stúku við Eskifjarðarvöll. Slíkt er skilyrt í leyfiskerfi Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) fyrir lið í fyrstu deild en þar mun Fjarðabyggð spila næsta sumar.KSÍ krefst 300 aðskilinna sæta en veitt er undanþága til aðlögunar fyrsta árið eftir að lið ávinnur sér sæti í deildinni.
Þann tíma hefur Fjarðabyggð þegar nýtt og gott betur. Leyfiskerfið var innleitt 2006 en Fjarðabyggð spilaði í fyrstu deild það sumar.
KSÍ veitti liðum tveggja ára frest út af hruninu og svo fékk Fjarðabyggð undanþágu eitt ár í viðbót. Sá frestur rann út árið 2010 en það ár féll liðið úr deildinni.
Í erindi Fjarðabyggðar segir að KSÍ hafi staðfest að engar fleiri undanþágur verði veittar og því ljóst að stúkan þurfi að vera klár næst þegar liðið spilar í fyrstu deild, en það ávann sér þann rétt í byrjun september.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Bjarni Ólafur Birkisson, formaður KFF, að lítið sé ljóst varðandi stúkubygginguna annað en hún þurfi að vera til staðar næsta sumar og hún muni koma í stað grasbrekkunnar þar sem áhorfendur hafa setið við Eskifjarðarvöll.
Þannig virðast áætlanir um kostnað eða skiptingu hans ekki liggja fyrir en félagið hefur leitað eftir stuðningi sveitarfélaga sem skipað hefur fulltrúa til viðræðna við félagið.
Þá er von á fulltrúa KSÍ austur til að taka út mannvirki Fjarðabyggðar en vitað er að endurnýja þarf varamannaskýli við völlinn.
Fjarðabyggð fagnar sigrinum í 2. deild. Mynd: Eysteinn Þór Kristinsson