Ekki búið að greina hvað var í sjónum við álverið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. sep 2014 14:12 • Uppfært 23. sep 2014 14:16
Enn er beðið eftir niðurstöður efnagreiningar á mengun sem varð vart í sjónum rétt hjá álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði á föstudag. Mengunin hvarf fljótt sjónum úr sjónum.
Í hádeginu á föstudag tóku starfsmenn álversins eftir dökkri brák á sjónum sem líktist helst olíu. Hafnsögubáturinn Vöttur var sendur í staðinn og viðbragðsaðilar voru til taks en strax var þó staðfest að ekki væri um olíu að ræða.
Ekki er þó enn búið að efnagreina það sem flaut á sjónum og fengust þær upplýsingar í dag að það tæki líklega einhverja daga.
Efnið var ekki í miklu magni og virðist annað hvort hafa skolað upp í fjöru eða sokkið.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls, segir ekkert benda til að efnið komi frá álverinu enda losi það ekkert í sjóinn. Sá möguleiki fæst þó ekki útilokaður fyrr en vitað er hvaða efni var þarna á ferð.