Alþingi: Of mikið um ómarkviss vinnubrögð og misheppnaðar fjárfestingar í fjarskiptamálum
Þingmenn úr Norðausturkjördæmi segja það ekki ganga að þeir sem ábyrgð beri á fjarskiptaþjónustu komist upp með að vísa hver á annan. Fjöldi dæma síðustu vikur um ótryggt samband kalli á markvissari viðbrögð. Á meðan sambandið sé ekki betra en það er upplifi íbúar á landsbyggðinni sig annars flokks.„Á netinu er að finna kort yfir þau svæði sem GSM-kerfin þjónusta á landsbyggðinni en við sem keyrum þjóðvegi landsins reglulega gætum öll á stuttum tíma gert verulegar leiðréttingar á þessum kortum. Það þarf mikið að breytast á þessu sviði," sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, við umræður um fjarskiptasamband á landsbyggðinni í síðustu viku.
Hún rifjaði upp að SMS frá almannavörnum vegna brennisteinsmengunar hefðu fyrst ekki borist viðskiptavinum Nova í Fjarðabyggð og síðan ekki viðskiptavinum Símans við Öxarfjörð.
Á síðarnefndasvæðinu hafi GSM sambandið oft verið stopult sem og sjónvarps- og útvarpsútsendingar „vegna bilana hjá Vodafone og galla í kerfi Mílu." Af þessu hafi þó fáir haft áhyggjur fyrr en fór að gjósa.
Ábyrgðaraðilar vísa hver á annan
Þá hafi bæði ferðamenn og heimafólk lent í vandræðum á bæjarhátíðum í sumar þegar mannfjöldinn fór fram úr daglegum fjölda og GSM-kerfinu urðu ofhlaðin.
„Það þýðir meðal annars skert samband viðbragðsaðila og víða urðu GSM-posar óvirkir, sem ekki er sérlega hentugt dagana sem þjónustuaðilar í byggðunum stefna að hámarki í tekjuöflun."
Líneik segir vinnu í fjarskiptamálum ómarkvissa. „Fyrirkomulagið er það flókið og ábyrgð óljós að þeir aðilar sem eiga að bera ábyrgð á fjarskiptum komast upp með að vísa hver á annan í stað þess að unnið sé markvisst að lausnum.
Það eru fyrirtækin sem veita þjónustuna, Míla sem rekur dreifikerfið, Ríkisútvarpið og Fjarskiptasjóður. Of mikið er um ómarkviss vinnubrögð og misheppnaðar fjárfestingar."
Íbúar á landsbyggðinni upplifa sig sem annars flokks
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, hóf umræðuna út af bilunum í gagnatengingum á Vestfjörðum í lok ágúst sem meðal annars varð til þess ekki var hægt að hringja í neyðarlínuna, lögreglu, sjúkrahús eða aðrar mikilvægar stofnanir á Vestfjörðum.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar úr Norðausturkjördæmi, sagði erfitt að vera með vitræna byggðastefnu nema fjarskipti væru í lagi.
„Þetta snýst um atvinnulífið, þetta snýst um búsetu, þetta snýst um öryggi og þetta verður einfaldlega að vera í lagi. Þetta er í rauninni eins og samgöngur.
Mér finnst líka athyglisvert að heyra og maður les fréttir af því að sveitarfélög úti á landi leggi víðast sjálf í kostnað og fari með ljósleiðara inn í hús og greiði það sjálf.
Ég vona að ráðherra flýti aðgerðum eins og henni er unnt því að það er eiginlega ekki boðlegt fyrir fólk sem býr úti á landi að staðan sé svona. Maður upplifir sig í raun svolítið eins og annars flokks og það er ekki gott."
Vinnuhópar að störfum
Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, svaraði því að öryggi í fjarskiptum væri mikilvægt fyrir landsmenn og að Póst- og fjarskiptastofnun hefði það hlutverk að kalla eftir upplýsingum um stærri bilanir og fylgja eftir úrbótum. Þá sé í fjarskiptaáætlun 2011-2022 markmið um ljósleiðaratenginu landsvæða með yfir 5 þúsund íbúa.
Hún sagði að almennt lægju fyrir góðar upplýsingar um fjarskiptaþjónustu hérlendis og verkefnastjórn undir forustu Arnbjargar Sveinsdóttur, fyrrum þingmanns og núverandi forseta bæjarstjórnar Seyðisfjarðar, vinni að því að endurskoða fjarskiptaáætlun.
Stefnt sé að því að leggja hana fram fljótlega eftir áramót. „ Í henni verða sett fram markmið um uppbyggingu fjarskipta hér á landi og verkefni sem ætlað er að stuðla að því að þeim markmiðum verði náð," sagði ráðherrann.
Þá er einnig starfandi verkefnahópur á vegnum ráðuneytisins undir forustu þingmannsins Haraldar Benediktssonar sem gera á tillögur um breytingar á alþjónustu í fjarskiptum. Gert er ráð fyrir því að hópurinn skili tillögum sínum í október um mögulega uppbyggingu fjarskiptasambanda.