Skip to main content

Útvarpsstjóri: RÚV hefur skyldum að gegna við alla landsmenn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. sep 2014 17:59Uppfært 25. sep 2014 18:06

magnus geir thordarson vpfj14 mmth webStefnt er að því að fjölga störfum á vegum Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni um 4-5 á næstu árum. Fjárhagur stofnunarinnar er afar erfiður, skuldir miklar og stöðugt skorið niður síðustu ár. Nýr útvarpsstjóri segist vilja færa áherslurnar frá umbúðunum yfir á innihaldið.


„Ríkisútvarpið er torg þjóðarinnar, þegar mikið er um að vera flykkist fólk þangað, bæði á hátíðarstundum og eins þegar vá ber að höndum. Ríkisútvarpið hefur að sjálfsögðu skyldum að gegna við landsmenn, sama hvar þeir búa," sagði Magnús Geir Þórðarson, nýráðinn útvarpsstjóri í erindi sem hann hélt á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um síðustu helgi.

Hann fór þar meðal annars yfir rekstrarumhverfi stofnunarinnar en hann sagði fjármögnun ársins 2014 óvissa. Stofnunin væri „yfirskuldsett" og stæði ekki undir afborgunum lána. Tapið í fyrra hefði numið 350 milljónum króna og skuldir næmu sex milljörðum króna. Það hafi áhrif á alla starfsemina. Frá árinu 2008 hefur stöðugildum hjá RÚV fækkað úr 360 í 230 eða um 37%.

Hann sagði stefnubreytingu hafa orðið og nú snérist öll áherslan um innihaldið. „Í dag stendur eftir stór umgjörð, en skorið hefur verið niður að innan og í innihaldinu. Þessu er verið að reyna að breyta. Við erum að reyna að skerpa á því hvað RÚV snýst um. Færa fókusinn frá umbúðum og á innihaldið."

Magnús Geir nefndi fimm áhersluatriði sem hafa verið skilgreind sem forgangsmál næstu missera. Að gera skurk í gömlum upptökum, efla nýmiðla þar sem RÚV hafi dregist aftur úr, auka innlenda dagskrárgerð á sviði leikins efnis, auka áherslu á barnaefni og íslenskt efni sem standist samanburð við flæði á erlendu efni. Þá verði starfsemin á landsbyggðinni efld umtalsvert.

Hann sagði samdrátt hafa orðið í allri starfsemi RÚV en meira hefði verið skorið í starfseminni á landsbyggðinni en minnast má þess að svæðisútvarp Austurlands var lagt niður í ársbyrjun 2010. Þar með hefði hlutfallið milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar orðið skakkt. „Þessu verður að breyta."

Ráðinn hefur verið nýr svæðisstjóri RÚV á Akureyri, Freyja Dögg Frímannsdóttir, sem stýri og móti starfsemina á landsbyggðinni.

„Síðan á að taka við fjölgun starfsmanna á landsbyggðinni. Bæta við 4-6 stöðugildum á landsbyggðinni á næstu tveimur árum."

Áherslan virðist eiga að vera á fréttamenn sem geti bæði myndað og tekið viðtöl. Ekki verði hins vegar settar upp starfsstöðvar. Flæði frétta á netinu verði eflt og dagskrárgerð úti á landi efld.

Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem skorað er á RÚV að koma aftur á svæðisútvarpinu. Í ályktunni segir að styrkja þurfi bæði fréttaþjónustu og dagskrárgerð í fjórðungnum „svo tryggja megi sem best þáttagerð af svæðinu og síðast en ekki síst vandaðan fréttaflutning."