Fundi um framtíð póstmála frestað: Hyggjast fækka dreifingadögum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. sep 2014 14:26 • Uppfært 29. sep 2014 14:28
Ákveðið hefur verið að fresta opnum fundi um framtíð póstmála sem halda átti á Egilsstöðum í dag vegna veðurs. Til stendur að fækka dreifingardögum á Austfjörðum.
Innanlandsflug hefur legið niðri í morgun og er það ástæða þess að fundurinn sem halda átti klukkan fimm fellur niður. Ekki hefur verið gefinn út nýr fundartími.
Forsvarsmenn Íslandspósts halda nú opna fundi um landið en í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að ræða hafi átt stöðu og framtíð póstmála á Íslandi. Það segir að „Skoðun landsmanna á póstmálum sé mjög mikilvæg fyrir fyrirtækið."
Íslandspóstur hefur óskað eftir því að fá að fækka dreifingardögum á 111 heimilum í dreifbýli í Fjarðabyggð, Breiðdalshreppi og Djúpavogshreppi úr fimm í þrjá.