Gunnþór Ingvason: Mikil ábyrgð sem fylgir kaupunum
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir hluthafa Gullbergs hafa lagt á það áherslu að útgerð og fiskvinnslu yrði haldið áfram á Seyðisfirði í viðræðum um kaup Síldarvinnslunnar á Gullbergi. Hann álítur að kaupsamningurinn endurspegli þær áherslur.„Við leggjum áherslu á að héðan verði áfram gert út og við erum líka búnir að segja að við munum tryggja framleiðslustörf í sjávarútvegi á svæðinu," sagði Gunnþór í samtali við Austurfrétt eftir fund með starfsmönnum í morgun þar sem kaupin voru tilkynnt.
„Frumkvæðið að þessum viðskiptum kom frá hluthöfum Gullbergs. Í þeirra hópi höfðu átt sér stað ákveðin kynslóðaskiptir og sumir vildu losna út úr rekstrinum enda farnir af staðnum.
Útgerðin hafði verið í eigu sömu fjölskyldanna í 55 ár og auðvitað var tilfinningaþrungið fyrir þau að fara út en ég held að við sýnum þeim skilning að þau hafi viljað losa sig út.
Það kom inn til okkar að hluthafarnir væru á leið út og við ákváðum að fara í þessi kaup eftir að hafa hugsað okkur vel um því það er ekkert sjálfsagt fyrir félag eins og okkar að stökkva inn í þessa ábyrgð.
Þau gerðu hins vegar ákveðna kröfu og sóttu það stíft að útgerðin færi ekki úr bænum og líka yrði staðið að baki starfsemi í landi.
Við erum hins vegar búin að fara í gegnum málið og þetta er niðurstaðan. Við komum inn og teljum að við getum staðið á bakvið þessi störf."
Reksturinn skoðaður eftir staðfestingu Samkeppniseftirlitsins
Síldarvinnslan eignast allt hlutafé í Gullbergi sem gerir út togarann Gullver og fiskvinnslunni Brimbergi. Áætlað er að 60-70 manns starfi hjá félögunum.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Reikna má með að niðurstaða þess verði ljós eftir 6-8 mánuði. Þangað til verða litlar og engar breytingar á rekstrinum á Seyðisfirði.
„Þegar afgreiðslan kemur setjumst við yfir málin af meiri festu. Það er ljóst að aflaheimildirnar eru ekki miklar og ekki unnið í vinnslunni alla virka daga þannig það þarf að fara ofan í reksturinn og sníða hann að því sem hér er. Vonandi náum viða að gera ákveðnar breytingar þannig hér verði traust störf í sjávarútvegi og útgerðin gangi."
Fyrir er Síldarvinnslan með fiskimjölsverksmiðju á Seyðisfirði sem veitir 15-18 manns atvinnu. „Við erum þegar með stærstu atvinnurekendum staðarins og útsvarstekjur og hafnargjöld af starfsemi okkar vega þungt. Það er ekki eins og þetta standi okkur ekki aðeins nálægt.
Við teljum okkur vera að efla sjávarútveginn á svæðinu og tengdar greinar. Þetta styður hvað við annað. Við höfum breikkað rekstrargrundvöll Síldarvinnslunnar með að bæta við okkur aflaheimildum í bolfiski.
Við sem hér búum skulum líka rétt vona að í framtíðinni verði þetta eitt atvinnusvæði tengt saman með jarðgöngum."