Fyrirtæki bregðast við yfirvofandi dagsektum og koma upp olíuskiljum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. okt 2014 17:48 • Uppfært 10. okt 2014 11:11
Fyrirtækin ÞS verktakar og Rafey á Egilsstöðum hafa brugðist við kröfum Heilbrigðiseftirlits Austurlands og komið upp olíuskiljum á starfssvæði sínu. HAUST hugðist beita dagsektum ef ekki yrði bætt úr.
Bæði fyrirtækin eru með starfsstöðvar við Miðás á Egilsstöðum en farið var fram á olíuskilju í fráveitu fyrirtækjanna áður en hún sameinast fráveitukerfi sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs.
Í fundargerð heilbrigðisnefndar frá í september kemur fram að ÞS verktakar hafi fengið fresti í rúmt ár en ekki brugðist við. Því var samþykkt að beita dagsektum upp á 100.000 krónur á mánuði frá og með 1. október.
Þær upplýsingar fengust frá HAUST í dag að fyrirtækið hefði brugðist við fyrir tilsettan tíma og því kæmi ekki til dagsektanna.
Á sama fundi var Rafey veittur frestur til að koma upp sinni skilju til 15. október. Þar var búið að kaupa skiljuna en ekki unnist tími til að koma henni fyrir.
Þar hafa menn hafið framkvæmdir og er von á að þeim verðu lokið áður en fresturinn rennur út.