Óttast að ný embætti fái ekki fjármagn til að halda uppi óbreyttri þjónustu
Forsvarsmenn austfirskra sveitarstjórna hafa áhyggjur af fjármagni til sýslumanns og lögreglustjóraembætta. Ný embætti eiga að taka til starfa um áramót. Þeir hvetja ráðherra til að standa við gefin fyrirheit um óbreytta og jafnvel eflda þjónustu.Forsvarsmenn embættanna hafa að undanförnu fundað með austfirskum sveitarstjórnum. Í bókun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs segir að miðað við þá kynningu sem ráðið hafi fengið skorti „nokkuð" á að það fé sem ætlað er til reksturs embættis sýslumannsins á Austurlandi dugi til að halda uppi óbreyttri þjónustu miðað við fyrri embætti, „hvað þá" að það verði eflt eins og ráðherra hafi boðað.
„Bæjarráð lítur alvarlegum augum að áður kynnt áform um starfsemi og þjónustu hins nýja embættis vegna breytinga á embættum sýslumanna og lögreglustjóra á Austurlandi gangi ekki eftir."
Bæjarráðið hvetur ráðherra dómsmála og fjárlaganefnd til að taka á uppsöfnuðum halla embættanna á undanförnum árum og staðið verði við fyrirheit um flutning verkefna og ný störf til embættanna, líkt og boðað hafi verið.
Undir þetta er tekið í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar sem lýsir „þungum áhyggjum" af stöðu mála. „Ljóst er að þeir fjármunir sem ætlaðir eru nýju embætti Sýslumannsins á Austurlandi duga engan veginn til að halda uppi óbreyttri þjónustu embættisins, hvað þá að bæta hana eins og full þörf."
„Því var heitið að þjónusta sýsluskrifstofanna yrði óbreytt," sagði Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar á fundi bæjarstjórnar fyrir skemmstu. „Ef ekkert verður að gert þá gæti það þýtt skerta þjónustu fyrir okkur hér," sagði Jens.
Útlit er fyrir að löglærðum fulltrúum fækki og slíkur fulltrúi frá Seyðisfirði verði ekki til staðar á Eskifirði sem Jens Garðar sagði „óásættanlegt."
Í dag eru sýslumanns og lögreglustjóraembætti bæði á Seyðisfirði og Eskifirði. Með breytingunum verður til eitt sýslumannsembætti fyrir allt Austurland sem stýrt verður frá Seyðisfirði og annað lögreglustjóraembætti með höfuðstöðvar á Eskifirði.
Bæjarstjórn Seyðisfjarðar fagnar þeirri ákvörðun að sýslumannsembættið verði staðsett í bænum en tekur undir áhyggjur annarra af fjármálunum.
Í bókun bæjarstjórnarinnar er minnt á fyrirheit um eflda þjónustu og skorað á að fjárveitingin verði leiðrétt.
„Embættið hefur kynnt fulltrúum kaupstaðarins fyrirhugaðar fjárveitingar til embættisins vegna fyrsta starfsárs þess. Bæjarstjórn skorar á fjárlaganefnd að leiðrétta þá augljósu villu vegna fjárveitinga til Sýslumannsins á Austurlandi sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 og vel má sjá með samanburði við fjárveitingar til annarra embætta sýslumanna."
Innanríkisráðuneytið hefur ekki gefið afgerandi svör í samskiptum sínum við sveitastjórnirnar. „Ráðuneytið þakkar bæjarstjórninni fyrir ábendinguna og mun hafa hana til hliðsjónar við undirbúning fjárlaga komandi ára," segir í svari til bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.