Bjarkey Gunnarsdóttir: Fjárlagafrumvarpið er fjandsamlegt landsbyggðinni
Bjarkey Gunnarsdóttir, sem situr á þingi fyrir Vinstrihreyfinguna- grænt framboð í Norðausturkjördæmi, segir flutning Fiskistofu til Akureyrar ekki vega upp á móti þeim opinberu störfum sem tapist í niðurskurði stjórnvalda á þjónustu á landsbyggðinni.„Fiskistofa er tekin með annarri hendinni út á land og sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn er þar að skera niður störf," sagði Bjarkey á opnum fundi hreyfingarinnar á Egilsstöðum í síðustu viku.
Hún benti á niðurskurð sem fyrirsjáanlegur er hjá framhaldsskólum með fækkun nemendaígilda og í heilbrigðisþjónustu. „Fjárlagafrumvarpið er landsbyggðarfjandsamlegt. Hvað þýðir þetta fyrir sveitarfélögin í störfum? Þetta eru hámenntuð störf sem við erum að skera niður"
Í umræðu um heilbrigðismál sagði hún Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, „sveiflast eins og pendúl."
Bjarkey taldi forsendur fjárlagafrumvarpsins hæpnar. „Þeir ætla fyrirtækjarekstrinum og einkaneyslunni að borga það sem fallið hefur verið frá í skattheimtu. Við trúum ekki að það gerist."
Björt framtíð í náðinni hjá RÚV?
Hún gerði einnig starfið á Alþingi að umtalsefni en hún tók þar sæti sem aðalamaður í fyrravor eftir að hafa verið varaþingmaður. „Það er upplifun okkar að stjórnarflokkarnir tala ekki saman á þinginu. Það sést líka í fjölmiðlum."
En gagnrýnin snérist ekki bara að ríkisstjórnarflokkunum heldur einnig öðrum flokkum í stjórnarandstöðu og nýjum þingmönnum.
„Fyrst eftir að fólk sest á þing veit það ekki hvernig það á að snúa sér. Í nefndarstörfunum ráða embættismenn för og það er ekki af hinu góða því hin eiginlega pólitík nær ekki fram að ganga."
Það er ótrúlega lítil pólitísk umræða inni á þingi. Við höfum mest verið með EES mál og ríkisstjórnin kemur aftur seint fram með málin sín. Það vantar þessa pólitísku umræðu.
Stjórnarandstöðuflokkarnir eru ólíkir. Björt framtíð er skinheilög og stundar ekki pólitík. Píratar eru út og suður og ekkert hægt að stóla á þá. Það er óheppilegt að stjórnarandstaðan geti ekki komið fram sem heild.
Björt framtíð er uppi á pallborðinu hjá þingfréttaritara RÚV, eins og þau hafi staðið í lappirnar fyrir þeirri pólitík sem þau standa en við ekki. Það er alvarlegt þegar fréttaritarar taka svona pól í hæðina og horfa eins og hrossin með fyrir augunum á það sem er að gerast."
Sjálfstæðisflokknum blæðir út
Steingrímur J. Sigfússon, oddviti hreyfingarinnar í kjördæminu og fyrrum formaður, sagði „mestar líkur" á að ríkisstjórnin mundi „hanga út kjörtímabilið." Erfitt væri að sjá fyrir sér breytingar á ríkisstjórninni án nýrra kosninga.
„Framsókn fer ekki neitt en það er spurning með Sjálfstæðisflokkinn, hvort hann haldi þetta út. Honum blæðir út og nær ekki vopnum sínum."
Hann tók þó fram að „lítið væri farið að reyna á" stjórnina. Þar sem „stærstu og erfiðustu verkin" svo sem afnám gjaldeyrishafta væri framundan. Hann sagði einnig að lítill kraftur væri í ríkisstjórninni en það væri „kannski ágætt. Þeir gera þá minna af sér."